maður á vappi 2 (framhaldssaga)

Ég náði ekki að  ljúka skrifum mínum í gær á Kaktusnum.  Kæra dagbók, ég var að segja frá samtali sem ég átti við mann í útlendri brekku með útsýni yfir tómlega eða líflausa borg og hann sagði mér frá því þarna í brekkunni að þegar hann læsi bók vekti það oft áhuga á höfundi þeirrar bókar sem hann las. „Mig langar að vita hvernig manneskja það er sem hefur sett orðin á blað,“ sagði hann.

Sjálfur veit ég að það er ekki alltaf góð reynsla að hitta höfund góðra bóka en stundum vekja kynni manns af höfundi löngun til að lesa enn fleiri bækur. En þessi áhugi á að kynnast rithöfundi vegna bóka hans er allsérstakur og ekki eru verk margra annarra starfsstétta sem vekja þennan áhuga. Til dæmis hef ég ekki neinn sérstakan áhuga á að kynnast skósmiðnum sem bjó til leðurskóna mína, bílasmiðnum sem bjó til bílinn minn eða pípulagningarmanninum sem lagði rörin í húsið mitt, þótt vel geti verið að þetta sé sérlega áhugavert fólk.

Um þetta ræddum við, ég og maðurinn á vappi í brekkunni. Í gær varð þetta samtal einhvern veginn meira aktúelt því ég keypti  bók eftir Maríu E. Bragadóttur, Sápufuglinn, sem ég hafði ætlað að næla mér í  síðan ég kom til Íslands í sumar. Ég hafði farið inn á heimasíðu forlags Maríu, Una útgáfuhús,  því mig langaði að vita meira um hana. Ég græddi satt að segja ekki neitt á því. Á heimasíðunni gat ég lesið að María hefði slegið í gegn með fyrstu bók sinni og að Kristín Eiríksdóttir, skáldkona, haldi því fram að María sé með geislasverð, (hvað sem það þýðir) og að hún (Kristín) „elski Sápufuglinn“. En megináhersla heimasíðu Unu útgáfuhúss er að selja bækurnar sem þau gefa út. Þetta er sem sagt svokölluð vefverslun.

Ég heyrði nýlega að Forlagið hefði endurnýjað heimasíðu sína og ég skoðaði hana af nokkrum áhuga án þess þó að skilja í hverju endurnýjunin væri fólgin. Forlagid.is er bókabúð – eina erindi síðunnar við þá sem heimsækja hana er að selja bækur –  en frá bókabúðasíðunni kemst maður inn á það sem kallast útgáfa og þar birtast stórar myndir af fjórum höfundum forlagsins, einskonar fánaberum, og þar fyrir neðan eru fréttir af söluafrekum höfunda eða af verðlaunaveitingum. Á þessari síðu var ekki mikið að græða ef maður hafði áhuga á að kynnast höfundum bóka útgáfunnar eða vita meira um bókmenntastarfsemi Forlagsins.

Ég minnist á þetta hér, einnig vegna þess að ég varð fyrir mikilli uppljómum (og ekki í fyrsta skipti) þegar ég fór inn á bókmenntasíðu danska listasafnsins Louisiana í Danmörku. Þar eru fjölmörg frábær viðtöl við rithöfunda (m.a. hinn íslenska Sjón) um ólík efni. Ég fékk um daginn bók að gjöf eftir rithöfundinn Geoff Dyer og bókin vakti áhuga minn á þessum höfundi. Og einmitt á Louisiana Channel er stórgott viðtal við manninn um hvað gerir líf rithöfundarins áhugavert.

En sem sagt – ég er víst kominn út um viðann völl – langar mig til þess að á Íslandi (eða á íslensku) sé til miðill sem fjalli um bókmenntir, kynni höfunda og bækur. Þetta var sem sagt hið ókláraða erindi mitt við dagbókina í gær.

ps. það rignir óskaplega í dag. Stórir pollar eru á malarveginum sem liggur frá húsinu hér í Hvalfirðinum og þung, svört ský hylja fjöllin í kring.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.