Sápufuglinn og þrjár hvítar kindur.

Um daginn keyrði ég til Reykjavíkur. Ég þurfti að hitta mann og annan og fara í verslunarmiðstöðina Kringluna. Það vakti eiginlega töluverða undrun hjá mér þegar þangað kom hversu fáir voru á ferli í þessari stóru verslunarmiðstöð sem mig minnti að hefði alltaf verið full af fólki. En hvað um það, eiginlega er mér alveg sama hversu margir koma í Kringluna. Það sem ég vildi sagt hafa var að ég náði mér í bók Maríu E. Bragadóttur, Sápufuglinn, í bókabúð. Þetta er pínulítil bók, 103 síður í litlu broti og í bókinni eru prentaðar þrjár smásögur. Ég var spenntur fyrir bókinni því ég hafði lesið sögur höfundarins frá árinu 2020 í smásagnasafninu Herbergi í öðrum heimi. sem  vakti töluverða athygli. Helstu kanónur Íslands eins og Gísli Marteinn og Hallgrímur Helgason notuðu á sínum tíma (og í takti við tíðarandann) stór orð til að lýsa hrifningu sinni á verkinu. Herbergi í öðrum heimi las ég sjálfur mér til ánægju og ég skynjaði líka þegar ég sat á skrifstofu minni við Eyrarsundið að svolítill áhugi kviknaði hjá útlendum forlögum fyrir höfundinum.

Ekki veit ég hvort María E. óttast að skrifa bók tvö eins og margir höfundar sem fá óvænta og ríkulega athygli fyrir frumraun sína. Oft geta slíkar viðtökur verkað hamlandi á unga höfunda sem eru að hefja feril sinn. Ég velti fyrir mér hvers vegna forlagið og höfundurinn hafa valið að fara þessa leið að gefa út þetta örlitla safn sem varla getur talist bók tvö, svo lítil er hún. Þetta er einskonar millibók. Kannski er þetta gert til að létta spennunni á höfundinum? Um það veit ég ekkert en ég er bara að velta vöngum. Una útgáfuhús er metnaðarfullt forlag og þangað sækja ungir og efnilegir höfundar. Forlaginu hefur tekist ágætlega að skapa stemmningu í kringum sumar af útgáfubókum forlagsins og finnst mér því mjög spennandi að fylgjast með í hvaða átt forlagið þróast. Verður þetta forlagið sem lyftir íslensku bókmenntalífi, kveikir endurnýjaðan áhuga á bókmenntum, kemur með kraft og safa inn í íslenskt listalíf og gerir bókaútgáfu kannski að sínu eigin listformi?

En aftur að Sápufuglinum. Af þremur sögum bókarinnar hennar Maríu er titilsagan Sápufuglinn að mínu mati langbest, skarar framúr og eiginlega eina sagan sem mér þótti  almennilega ná máli en hún er líka ansi góð og sýnir hvað höfundurinn getur afrekað. Hinar tvær sögurnar Til hamingju með afmælið og Dvergurinn með eyrað eru hins vegar nokkuð linar að mínu mati.

ps. Ég náði ljósmynd af þremur kindum (kindamömmu með lömbin sín tvö) á hlaupum mínum eftir Hvalfjarðarvegi í gær. Eiginlega er þetta eitt af uppáhaldsmyndefnunum mínum. Þrjár hvítar kindur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.