Gleymskan

Ég gleymi. Meira að segja þýðingarmestu atvik lífs míns hyljast smám saman undir hvítri og þykkri gleymskuþoku. Stundum skammast ég  mín fyrir gleymskuna. Hvernig get ég gleymt afgerandi atvikum í lífi mínu? Hvernig dirfist ég?  Að finna hvernig minningargloppurnar stækka gerir mig stundum hálf óttasleginn. Mér til huggunar hef ég lesið um rithöfunda sem hafa ákveðið að skrifa um bernsku sina eða unglingsár, um foreldra sína eða æskufélaga og ég tek eftir því að flestir segja að þeir hafi í upphafi ekki munað neitt en smám saman eftir því sem þeir grafa dýpra lýsast atvik upp í minninu. Ég hugga mig við það að ég á enn möguleika á að muna.

Um næstu helgi hefst bókmenntahátíðin í Louisiana safninu og ég hlakka óskaplega mikið til. Ég hef þegar merkt við þau atriði í dagskráryfirlitinu sem ég ætla að hlusta á. Linn Ullmann kemur og ég ætla að mæta. Sömuleiðis Benjamin Labatut, Judith Hermann, Solvej Balle, Deborah Levi og Jón Kalman í samtali við Carl Frode Tiller. Þetta er frábær dagskrá. Að hugsa sér að Jón Kalman sé orðinn svo stórt alþjóðlegt nafn að hann fái boð til að taka í þessari hátíð með hinum bókmenntastjörnunum. Það er sko aðdáunarvert.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.