Sálarkreppa ljóðaþýðandans

Í gær var 15. ágúst og það var einmitt í gær sem bók Linn Ullmann Pige, 1983 kom út hér í Danmörku. Ég hef lengi verið mikill aðdáandi skrifa Linn Ullmann og því hlakka ég mikið til að lesa þessa nýju bók hennar. Ég ætla að sækja hana í bókabúð í dag eða á morgun. Í gær birtist líka viðtal við skáldkonuna sem tekið var á heimili hennar í Osló. Ekki að það skipti máli hvar viðtalið var tekið en sú hugsun flögraði í gegnum huga minn að það væri nú fyndið ef íslenskir blaðamenn kæmu alla leið til Danmerkur til að taka viðtal við mig þegar nýja bókin mín kemur út í haust. En svo langt á rithöfundabrautinni hef ég ekki náð. Það kemur að því. Yo!

Viðtalið sem birtist í Politiken var gott eins og flest sem birtist á menningarsíðum blaðsins. Íslenskir bókmenntaáhugamenn geta öfundað danska bókmenntaáhugamenn af að enn er fjallað um bókmenntir í dönskum dagblöðum á vitrænan og áhugaverðan hátt. Linn segir frá því í viðtalinu  að á tímum veirufaraldursins hafi hún eiginlega misst móðinn. Hún var að skrifa bókina sem nú er nýkomin út, en einangrunin og allar þær endalausu fréttir af veikindum fór beint inn í taugakerfið hjá skáldkonunni. Þunglyndi og kvíði tóku völdin og hún þurfti að leita til sérfræðinga til að komast út úr sálarkreppunni. Hún greip til þess ráðs í bataferlinu að setjast við ljóðaþýðingar. „Ég varð skelfingu lostin þegar faraldurinn reið yfir. Ég gerði ekki annað en að skoða fréttir á símanum mínum. Á fimm mínútna fresti athugaði ég hvort komnar væru nýjar upplýsingar um fjölda smitaðra í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn, Osló, New York …“ Og svo byrjaði hún að þýða ljóð Pablo Neruda, fyrst ljóð sem heitir „Að þegja“. Og henni fannst þýðingin svo vel heppnuð að hana langaði til að birta þýðinguna. Linn Ullmann notar ekki Facebook eða aðra félagsmiðla – the feedback loop from Hell  – sem smám saman er að yfirtaka hið vestræna menningarsvæði.

Í stað þess að setja ljóðaþýðinguna ofan í skúffu brá hún á það ráð að læðast út í skjóli kvöldmyrkursins og líma útprent af ljóðinu á ljósastaur úti í almenningsgarði rétt við íbúðina hennar í Osló. Síðan hélt hún áfram að þýða ljóð bæði Inger Christiansen, Jane Kenyon, Naju Mariu Aidt … og öll ljóðaútprentin voru límd á ljósastaura almenningsgarðsins án þess að nokkur fengi að vita hver stæði fyrir þessari ljóðauppákomu. Það var ekki fyrr en norska ríkisútvarpið sendi rannsóknarblaðamann á svæðið að upp komst um Linn.

Ég varð svo hrifin af þessu uppátæki norsku skáldkonunnar að mig langaði að skapa samskonar uppákomu. En ég læt ekki verða af því, ég er ekki í stuði til þess.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.