Hann kemur aldrei aftur

Ég varð svolítið hugsi í gær yfir tveimur atvikum sem ég varð vitni að. Ég reyndi að koma mér snemma út að hlaupa því hér í Danmörku er orðið ansi heitt. Að hlaupa í 27 gráðu hita er erfitt og nú þegar ég hef sett nokkra 200 metra spretti inn í langhlaupið verður hitinn manni einskonar fjötur um fót. En sem sagt ég var kominn af stað rétt fyrir klukkan 7:30 og hljóp eins og svo oft áður eftir Strandvejen í átt til Helsingør. Mestur hluti hlaupaleiðarinnar liggur því meðfram ströndinni og Eyrarsundið veitir örlítinn svala á hlaupunum. Ég hafði lagt um það bil 8 kílómetra að baki þegar ég sé mann í baðkápu koma kjagandi á móti mér. Ég reiknaði út að hann ætlaði að fá sér sundsprett. Ég sá að hann var glaðlegur og brosmildur. Honum virðist eiginlega vera skemmt yfir að mæta löðursveittum langintes í langhlaupi. En þegar ég kom nær manninum sá ég ekki betur en þetta væri Charles Bukowski. Mér brá. Maðurinn var sláandi líkur þeim Charles Bukowski sem ég hef séð á myndum. Við mættumst og Bokowski sagði hátt og snjallt með rámri en vinsamlegri röddu: „god tur“. Ég þakkaði manninum fyrir góðar óskir.

Ég hafði ekki setið lengi við tölvuna eftir að loknu morgunhlaupinu þegar mér barst skeyti þar sem ég var minntur á að þann 16. ágúst árið 1920 hefði Charles Bukowski fæðst og því hefði hann orðið 102 ára hefði hann lifað. En Bukowski er dáinn fyrir löngu. Þegar ég las skeytið undraðist ég yfir að í tvígang skyldi ég vera minntur á Charles Bukowski, skáld sem ég hef aldrei haft sérstakar mætur á.

Það var þó árið 1996 að ég, ásamt fleirum, stóðum að útgáfu á svokölluðu sérriti um Bukowski í tímaritinu Bjartur og frú Emilía sem við gáfum út. Ég man þegar Jón Kalman stakk upp á að taka saman úrval ljóða Bukowskis og skrifa ítarlegan formála um skáldið og gefa út að ég hikaði eitt andartak því mér leist ekkert sérlega vel á ljóð þessa mikla svallara. En ég var þó ekki  lengi að átta mig á að fengur yrði að þessari kynningu Jóns Kalmans á skáldinu.

Bukowski var það sem ég kalla vúlger náungi. Hávær, drykkjubolti sem er á eftir hverju pilsi og ljóðin voru í mínum huga eftir því. Það er sjaldan sem ég kann vel við slíkar persónur. Mér þótti þó alltaf frekar smart að hann vann hjá póstinum – þó ekki bréfberi – eins og skáldið Bragi Ólafsson. Laununum, sem póstþjónustan greiddi honum, eyddi hann í áfengi og veðmál (hestakapphlaup). Á nóttinni drakk hann oft einn með ritvélinni sinni og framleiddi einhver ósköp af ljóðum og smásögum. Bukowski var einn þeirra sem sendu, ljóð, sögur og annars konar handrit án afláts til útgefenda til þess eins að fá höfnun. Í þrjátíu ár sendi hann afrakstur næturvinnunnar í allar áttir án þess að neinn sýndi skáldskapnum áhuga eða þar til einhver ágætur náungi á litlu bókaforlagi fékk undarlega ást á verkum Bukowskis og byrjaði að gefa hann út. Eftir fyrsta útgáfusamningurinn var undirritaður ákvað Bukowski að hætta á pósthúsinu og settist við skriftir á skáldsögu sem hann kláraði á þremur mánuðum og kallaði Post Office. Þetta var upphafið af afkastamiklum ferli.

Svona var það nú. 16. ágúst 2022 er liðinn og kemur aldrei aftur

 

Upphafssíða tímaritsins með Bukowski

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.