Massimo Dutti

Mér tókst að kaupa nýju bókina hennar Linn Ullmann í gær og ég gat ekki á mér setið og byrjaði strax í gær að lesa. „Årets stærkeste læseoplevele“ stendur á kápuforsíðunni. Ég veit ekki hvort það sé rétt en ég get ekki annað sagt en að Linn Ullmann skrifar áhrifamikinn texta. Ekki að hún lýsi mjög dramatískum atburðum heldur er textinn í sínum mikla einfaldleika áhrifamikill og fallegur.

Um þetta hugsaði ég þegar ég horfði út á Eyrarsundið eftir að hafa lokið 10 km hlaupi dagsins. Úti á sundinu var óvenjumikil skipaumferð; ferjur, seglbátar, flutningaskip og það sem vakti mesta athygli mína: risastórt olíuskip. Skipið var svo stórt að ég furðaði mig meira að segja á því að svona stórt skip kæmist klakklaust í gegnum þetta mjóa sund. Á það eftir að stranda í hinni þröngu siglingarrennu?

Í gær fór dagurinn – sem ég hafði þó áætlað að nota til að skrifa – í kápuvangaveltur vegna nýju bókarinnar sem kemur í haust. Í öllu ferlinu fann ég hvað ég var ánægður með vinnubrögðin hjá Bjarti. Kápuferlið – það er að segja þróun kápumyndarinnar, leturval, kápuáferð og textagerð á baksíðuna – gekk svo glimrandi vel. Okkur tókst að klára þetta allt á nokkrum klukkutímum og ég var mjög ánægður með niðurstöðuna. Kápan er gífurlega flott. Ég hika svolítið með að birta mynd af kápunni og ákveð að láta hana ekki flakka.

ps. Ég hef ekki mikið vit á fötum og fatamerkjum. En mér tókst einhvern veginn að láta eina af aðalpersónum haustbókarinnar minnar klæðast ólívugrænum frakka af merkinu Massimo Dutti. Frakkinn leikur örlítið aukahlutverk í bókinni og mér kom því gleðilega á óvart þegar hinn snjalli kápuhönnuður hafði sett ólífugrænan frakka á forsíðuna. Merkið er Massimo Dutti.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.