Munnþurrka Blixen og björt rödd Virginiu.

Af einhverjum ástæðum, sem ég get ekki skýrt nú og hér, varð mér í gær mjög hugsað til Virginiu Wolf, ensku skáldkonunnar. Ég hef aldrei lesið orð eftir hana og það er ekki einu sinni meðvituð ákvörðun. Bækur hennar hafa bara ekki náð að kveikja hjá mér áhuga. Í huganum tengi ég alltaf Karen Blixen og Viriginu Wolf saman því mér finnst höfuðlag þeirra eitthvað svo líkt. En ég hef bæði lesið Karen Blixen og gefið út eina bók eftir hana. Það var Gestaboð Babettu.

En það er víst aðeins til ein hljóðupptaka með Virginiu. Hljóðritun BBC frá árinu 1937 hefur varðveist. Rödd hennar er björt og eiginlega svolítið hvöss. „Að skrifa,“ segir hún, „er bara spurning um að finna rétt orð og setja þau í rétta röð.“

ps. Íslenska bókakápan á Gestboð Babettu var rauð, svört og gyllt servíetta sem ég fann einhvers staðar. Ég tók mynd af servíettunni  og notaði myndina á bókakápuna. Náði servíettan bæði yfir forsíðu og baksíðu bókarinnar. Þetta var ein af þeim mörgu bókakápum sem ég gerði fyrir Bjart. Það var ómögulegt, ef maður vissi ekki betur, að sjá að myndin var af servíettu. Mér fannst alltaf þessi bókakápa sérlega vel heppnuð. Ég taldi oft fólki sem var að skoða bókina trú  um að Karen Blixen hefði sjálf notað munnþurrkuna á kápunni og ef vel væri að gáð gæti maður séð hvar Karen hefði þurrkað sér um munninn eftir mikla veislumáltíð. Ég benti á stað efst í hægra horni forsíðunnar. Fólk varð hrifið og keypti bókina. Ég á því miður hvorki bókina né mynd af bókakápunni.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.