Að gráta í rúllutröppum, þó aðeins á leið upp

Það er bókmenntahátíð hér í næsta bæ, á Louisiana safninu í Humlebæk. Og þar eru komnar saman margar af helstu stjörnum bókmenntanna. Þótt allir þessir rithöfundar séu góðir að skrifa bækur er það ekki þar með sagt að þeir séu allir góðir til að kynna sig og verk sín á sviði. En ég varð þeirrar miklu ánægju aðnjótandi að hlusta á Suður-Afrísku eða bresku skáldkonuna Deborah Levy í gær á sviðinu í Louisiana. Ég hef  sjaldan verið viðstaddur jafngott samtal og ég varð vitni að þarna í gær. Allt sem Deborah sagði verkaði satt, satt og rétt. Hún talaði hægt og yfirvegað og virtist hafa áhugavert svar við öllum þeim góðu spurningum sem bornar voru upp. Mikið var þetta áhrifamikið. Á leið út að lokinni samkomunni heyrði ég konu tala við vinkonu sína. „Ég þurfti að berjast við tárin hvað eftir annað, þetta var svo áhrifamikið. Ég varð að loka augunum og einbeita mér að því að fara ekki að gráta,“ sagði konan. Og vinkonan svaraði: „Stundum líður mér svona þegar ég tek rúllutröppur upp, það er svo skrýtið, Ég er alltaf við það að gráta þegar ég er í rúllutröppum á leið upp.“

Og nú ætla ég aftur til Humlebæk að hlusta á rithöfunda, í þetta sinn eru það Judith Hermann og Bernard Labatut sem ég ætla að heyra segja frá verkum sínum og hugmyndum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.