Hjónalíf á flugvelli

Hjónin í flugvallarstofunni eru bæði með grátt hár. Þau tala saman í lágum hljóðum en ég heyri vel hvað þau segja. Þau nota herfilega ljót orð. Þau kýta. Þótt klukkan sé ekki enn orðin sex að morgni hafa þau bæði rauðvínsglas og gammel dansk á borðinu fyrir framan sig. Þetta eru ekki fyrstu glös morgunsins; það heyri ég á röddum þeirra. Karlmaðurinn, sem hefur þýsk gleraugu á nefinu, þolir vínið augljóslega ver en konan. Sjálfur sit ég andspænis þeim með rúnstykki á diski og reyni að manna mig upp í að taka bita. Tíminn líður og hjónin halda áfram að tuða og suða hvert í öðru. Þau eru á leið í ferðalag saman hugsa ég, jafnvel langt frí, en þeim líkar ekki  hvort við annað. Næstu daga eiga þau eftir að vappa saman eftir götum fjarlægrar borgar, panta sér snitsel og franskar kartöflur á ódýru veitingahúsi og jafnvel liggja hlið við hlið í hvítum sængurfötum á hótelherbergi. Mér líður illa yfir tilhugsuninni og ég get enn ekki bitið í rúnstykkið mitt. Skinkan sem ég hafði lagt mitt inn í rúnstykkið lafir út eins og blaut tunga.

Karlinn vill komast niður að flugvallarhliðinu og bíða þar eftir að flugvélin hans hleypir honum inn en kona hans  vill að hann sæki annað rauðvínsglas. „Fyrir okkur bæði,“ endurtekur hún í sífellu. Hann stendur upp, maldar í móinn en gefst fljótlega upp og sækir tvö rauðvínsglös. Þegar hann kemur til baka sest hann ekki niður heldur drekkur rauðvínið sitt standandi í stórum sopum og segir eitthvað sem ég heyri ekki við konu sína sem nennir ekki að svara honum. Hún situr kyrr, starir niður í símann sinn og potar öðru hverju í skjáinn. „Á síðustu stundu tróð ég auka stuttbuxum í bakpokann minn,“ segir hann og horfir fast á konu sína sem svarar engu.

ps ég er enn á leið til Íslands.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.