Ég hef lært það að Andy Warhol eigi ættir sínar að rekja til Austur-Evrópu; Tékkland, Slóveníu eða þar um kring. Ég hef heyrt að sumir segja að í hvert sinn sem hann málaði súpudós frá bandaríska fyrirtækinu Campbell hafi hann verið að reyna að komast undan oki arfleifðar sinnar; hinna flötu, brúnu akra Austur-Evrópu. Hver einasta niðursuðudós batt hann sterkari böndum við New York og bar hann burt frá lífi móður sinnar sem bjó í útlegð í Pittsburgh. Þegar hún var spurð hvar hún byggi svaraði hún alltaf: „Í útlegð.“
Andy Warhol átti mikið safn af hárkollum sem hann geymdi í þar til gerðum pappaboxum í The Factory í New York. Þegar hann setti hárkollu á höfuðið límdi hann hárkolluna fasta. Warhol klæddi sig í mismunandi gervi og það var einmittþess vegna sem ég fór að hugsa um hann í dag.
Um daginn var ég spurður að tvennu í einu samtali.
„Af hverju fluttirðu til Danmerkur?“ Ég svaraði því og gaf upp ástæður sem mér þykja sennilegar en um leið veit ég að ég get ekki gefið fullnægjandi skýringar. Þegar ég hafði lokið máli mínu, sem sagt gefið skýringar, kom önnur spurning sem mér fannst eiginlega ekki eiga að koma í beinu framhaldi af fyrri spurningunni. Þess vegna kom spurningin flatt upp á mig: „Hvers vegna fórstu að skrifa bækur?“
Ég veit nokkurn veginn af hverju ég fór að skrifa bækur en ekki nákvæmlega. Þurfti ég í alvöru að raða saman orðum og setningum til að lifa? Nei eða … Hafði það þýðingu fyrir mig að sjá nafn mitt á nokkrum bókum … Nei, eða … Bráðum neyðist ég í alvöru til að byrja að nota orð til að komast að því hver sé hinn eiginlegi veruleiki og þá sérstaklega hver minn eigin veruleiki er. „Þú ert líf þitt og ekkert annað,“ sagði Sartre. Já, eða …?
ps. Það er nokkuð hvass vindur hér í Hvalfirðinum. Það fann ég þegar ég hljóp mína 10 km eftir Hvalfjarðarvegi. Á hlaupunum hugsaði ég auðvitað um vindinn og vindmyllurnar sem eiga ef til vill eftir að rísa upp á háu fjalli við botn fjarðarins. Það virðist blása nógu mikið til að snúa vindmylluhreyfli, en hvort Hvalfjörður er góður staður fyrir vindmyllur veit ég ekki. Ég hef engan sérstakan áhuga á að fá vindmyllu, eina eða fleiri, í minn eigin bakgarð en hver hefur svo sem áhuga á því? Sennilega væri skynsamlegt að sérfræðingar kæmu sér saman um hvernig heppilegast er að byggja upp raforkuframleiðslu með vindmyllum og skilgreina hvar og hvernig sé best að staðsetja vindmyllur á landinu. Það þarf víst rafmagn til að knýja okkur áfram.
pps. Ég kláraði að lesa bók Linn Ullmann í nótt. Ég vaknaði um miðja nótt enda kannski svolítið tímavilltur og las bókina til enda. Þetta er góð lesning. Ég vildi að ég gæti skrifað svona fína bók.