Ferðir sem ekki verða farnar

Fyrir nokkru heyrði ég skáldkonu tala um að hún hefði einu sinni pantað flugmiða til Helsinki, lestarmiða frá Helsinki til Seinäjoki og rútu frá Seinäjoki til Teuva. Ferðina fór hún samt aldrei, en það er nú önnur saga. Allt þetta fyrirhugaða ferðalag var skipulagt til að geta skoðað altaristöflu sem Tove Jansson hafði málað beint á steinvegg í kirkju í Teuva. Myndefni var sprottið upp úr Mattheusarguðspjalli um brúðarmeyjarnar tíu; fimm hyggnar og fimm fávísar.

Ég heyrði líka um konu sem langaði svo að ferðast alla leið til Nýju Mexíkó til að skoða hinar ryðrauðu fjallshlíðar sem er viðfangsefni málverka George O’Keeffs. Myndirnar minntu hana svo á pabba hennar. Af þeirri ferð varð aldrei.

Mig dreymir stundum um að fara í ferðalag. Og alla leið til Oxford í Englandi. Þá mundi ég panta flugmiða til London og taka þaðan lest til Oxford. Sennilega er þessi enska borg í draumum mínum vegna þess að borgin virðist hafa verið sá staður í lífinu sem veitti foreldrum mínum mesta gleði af öllum þeim stöðum þar sem þau höfðu dvalið. Af þeirri ferð hefur aldrei orðið.

Mig langaði líka alltaf að koma til Brighton. Ég hafði haldið að þar væri bæði fallegt og sérstaklega uppörvandi andrúmsloft. Og þangað fór ég. Niðurstaða ferðarinnar var sennilega að oft er betra að láta sig dreyma um staði.

Það er rok í Hvalfirðinum í dag en hér eru engir vindmylluvængir á fjallatoppum til að fanga vindinn. Sólin er hins vegar komin yfir fjallatoppana fimm í austri og birta hennar speglast í firðinum. Ég vaknaði í nótt um þrjúleitið og varð litið út á fjörðinn og þar sigldi skip. Ég ályktaði auðvitað strax að Hvalur 8 væri á leið í land en þegar ég vaknaði aftur í morgun sá ég að stórt flutningaskip fullt af járni lá við akkeri úti á firðinum fyrir neðan gluggann minn.

Altarstafla Tove Jansson

 

ps. Í næstu viku fer ég til Parísar. Ég flýg frá flugvellinum í Kastrup og lendi á Charles De Gaulle flugvellinum fyrir utan borgina. Kannski – ég hef ekki ákveðið það – fæ ég mér göngutúr í vinnuhléi á söguslóðir sem Linn Ullmann lýsir í bókinni Pige, 1983. Rue de Anglais. Ég hef þegar mælt göngutímann frá Rue des Turnelles til Rue de Anglais. Það tekur 28 mínútur að ganga aðra leið og væntanlega tekur það jafn langan tíma að ganga til baka. 56 mínútna gönguferð.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.