Niðurslitna ferðatívólíið

Ég les bækur í löngum röðum. Síðustu vikur hef ég lesið nokkrar bækur eftir konur sem eru nokkuð uppteknar af sérherbergishugsun Virginu Wolf. Þær bækur sem ég hef nýlega lesið eru eftir  Judith Hermann, Linn Ullmann, Deborh Levy og Ida Jessen. (Eftirtektarverð er endurvakning Virginu Wolf og Margaret Duras í bókum þessara kvenna.) Allt stórkostlegar bækur. Ég er í einhers konar lesstraumi þar sem hver bók kallar eftir annarri. Og það er eins og maður sé þátttakandi í löngu, innilegu og áhugaverðu samtali þar sem ekkert viðfangsefni er heilagt, þar sem orðið og hugsunin er fullkomlega frjáls.

Að lesa bækur krefst aga, ró og orku. Agi, ró og orka eru sannkallaðar lúxusvörur í dag. Það er svo oft að maður lætur truflast, allir þessir léttkeyptu og auðmeltu miðlar lokka, eins og maður sogist aftur og aftur inn í lúið og sjúskað ferðatívólí. Einmitt þess vegna eru flestir orðnir órólegri og einbeitingarlausari. En ég vil endilega varðveita og endurvinna hæfnina til að einbeita mér; sökkva mér niður í áhugaverð viðfangsefni. Því er svo gaman að komast í svona lesstraum eins og ég er lentur í. Ég hlakka til stundanna þar sem ég get sest niður og lesið. Og nú les ég meira af Deborah Levy, The Cost of Living. (Gjöld lífsins). Stórkostlegt.

Ég var að hugsa um það á hlaupunum í morgun að í mörg ár hélt ég mjög aftur af mér í öllu sem ég gerði eða tók mér fyrir hendur af því ég var svo hræddur um að ég gæti með aðgerðum mínum sært einhverja af mínum nánustu. Alla tíð var þessi hugsun og þessi ótti hræðilega nálæg og yfirþyrmandi áþján. (Enn er ég ekki frjáls). Nú þegar ég er byrjaður að skrifa opinbera dagbók og líka bækur lúrir þessi ótti enn í undirvitundinni. Þessar áhyggjur fá auðvitað af og til næringu  og nær að magnast þegar ég er barinn í hausinn af einhverjum sem telur að ég hafi verið að reyna að móðga með skrifum mínum. Því var það svo gleðilegt þegar ég las um ungan rithöfund sem hafði skrifað sína fyrstu bók. Það var ekki fyrr en bókin var komin í búðir að það rann allt í einu upp fyrir höfundinum að það var yfirgnæfandi hætta á að nánir ættingjar hennar yrðu djúpt særðir yfir því sem höfundurinn hafði skrifað. Þessi nýuppgötvaði ótti varð til þess að höfundurinn skrifaði ekki eitt orð í þrjú eða fjögur ár.

Dag einn spurði mamma höfundarins hvernig gengi að skrifa. Höfundurinn ungi svaraði:
„Kannski reyni ég aftur þegar ég er orðin fimmtíu ára.“
„Hm,“ sagði mamman og svo var ekki meira talað um þetta.
Nokkrum vikum síðar kom mamma hennar aftur til hennar og sagði: „Þú skalt skrifa þær bækur sem þú vilt, um það sem þú vilt,“ sagði hún.
Gjörðu svo vel, vertu frjáls!

Ég vona að höfundurinn hafi þakkað almennilega fyrir þetta óvenjulega traust. Ekki gerist það svo oft að einhver sem skiptir afgerandi máli í lífi manns afhendi frelsið á þennan hátt; á silfurfati. Yfirleitt krefst það langrar baráttu að að víkka frelsissvið sitt og sú barátta særir oft aðra.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.