Eftir viðburðaríka helgi á Íslandi (ég kom til Danmerkur í gær) er ég nú á leið til Parísar. Ekki alveg óskatímasetning á þessari ferð en það er orðið ansi langt síðan ég setti dvöl í Batman-íbúðinni á dagskrá nú í byrjun september þar sem ég áætlaði að reyna að skila handriti að nýrri bók um miðjan október og því var alveg kjörið að setjast við skriftir í septemberbyrjun eða þannig var það í vor þegar ég skipulagði mig. Ég hefði vel getað hugsað mér að vera kyrr heima þessa viku en þetta er bara lúxusvandamál.
Um helgina tókst mér á óskiljanlegan hátt að týna minnisbókinni minni sem ég hef notað síðustu tvö ár. Hún er auðvitað full af gullmolum 😉 og sá sem finnur bókina heldur örugglega að hann hafi komist yfir fjársjóð. Þess vegna neyddist ég til að kaupa nýja minnisbók hér á flugvellinum. Ekki sama gæðaprentgripur og gamla minnisbókin mín en hún ætti að duga.
Það var mikill gestagangur í Hvalfirðinum þessa helgi. Gamlir vinir úr útgefendastétt flykktust til okkar en þeir eru staddir hér vegna brúðkaups Kalmans og Siggu. Norski útgefandi Kalmans, dansarinn Thomas og Kristin kona hans komu á föstudag og gistu. Franski útgefandi Jean Mattern og kærasti hans Jean-Mathieu komu á sunnudag og gistu. Ítölsku útgefendur Kalmans, Pietro og Cristine, ásamt Bianco konu Pietro, komu á sunnudag og borðuðu með okkur. Frábærlega gaman.
ps Klárði Deborah Levi bók 2 í sjálfsævisögu hennar. Ég var að vona að ég gæti fengið bók 3 á flugvellinum en það tókst mér ekki. Ég tók ljóðabók Sjóns með mér, Stríð og frið, Colin Toibín og barnabók eftir JK Rowling.