Hernaðaráætlanir forlaganna

Fyrsti morgunn í París og ég er mættur hingað á litla kaffihúsið í Mýrinni þar sem ég er vanur að sitja á meðan Parísardvöl minni stendur og fá mér fyrsta kaffibolla dagsins. Hér er rólegt – ég er fyrsti gestur dagsins – og franski eigandinn er búinn að setja á sama laga-lista og þegar ég var hér í vor; Janis Joplin, Rolling Stones …

Mér varð hugsað til míns ágæta forlags Forlagsins þegar mikil umræða upphófst í Danmörku eftir að Morten Hesseldahl var rekinn sem forstjóri Gyldendal, stærsta og virðulegasta forlags landsins. Morten hefur verið forstjóri Gyldendal í fjögur ár og setti strax og hann var ráðinn í gang mikla endurskipulagningu sem miðaði að því að færa þetta gamla bókaforlag hratt og örugglega inn í nútímann, eins og það var kallað. Hin metnaðarfulla áætlun Hesseldahls fólst í því að gera Gyldendal að nútímalegu útgáfuhúsi þar sem bækur eru bara hluti af margvíslegri og fjölbreyttri útgáfustarfsemi. Nú skyldi hinu svokallaða „innihaldi“ miðlað ekki bara í bókarformi heldur bæði með mynd, hljóði og í hinum rafræna heimi. Í þessum tilgangi setti Hesseldahl gífurlegt fjármagn í að búa til nýja streymisveitu fyrir bækur, Chapter, sem skyldi keppa við Storytel, BookBeat og alla hina. Það virðist þó ekki ætla að heppnast að laða bókaunnendur að þessari nýju streymisveitu og þetta er dýrt ævintýri.

Undir  forystu Hesseldahls fór Gyldendal að hugsa mun meira á markaðslegum forsendum – fækkaði til dæmis útgefnum titlum um helming – og reyndi að einbeita sér frekar að sölutitlum, metsölubókum, en að huga að bókmenntalegum metnaði. En samt sem áður streymdu peningarnir út úr kössum forlagsins og það voru ekki bara peningarnir sem streymdu burt heldur fóru  vinsælir höfundar líka að leita til annarra forlaga og starfsmenn lögðu einnig á flótta. Og afleiðing alls þessa er að Gyldendal er ekki lengur það forlag sem öllum höfundum dreymir um að fá útgáfusamning hjá. Gyldendal hefur misst forystuhlutverk sitt og virðinguna.

Síðustu áratugi hefur þótt langflottast að koma út hjá Gyldendal vilji maður gefa út bók í Danmörku en nú spretta upp ný forlög þangað sem ungir höfundar þyrpast til og nú  þykir það hálfpúkalegt að koma út hjá gömlu drottningunni.

Þegar ég hugsa um þetta í sambandi við íslenska markaðinn leitaði hugurinn til  Forlagsins  (MM, JPV, Vaka) sem er landsins stærsta forlag og sennilega það virðulegasta. Hingað til hefur höfundum þótt fínt, og þykir enn, að koma út undir merkjum Forlagsins. Maður getur þó ekki horft fram hjá því að nokkrir af stjörnuhöfundum Forlagsins hafa undanfarið fært sig um set: Bragi Ólafsson, Guðrún Eva Mínervudóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Auður Jónsdóttir … hafa öll flutt sig yfir á Bjart. Hjá yngri höfundum þykir það kannski allra best að koma út hjá Unu-útgáfuhúsi. Hverjar ástæðurnar eru fyrir hnignun Forlagsins er ekki gott að segja. Forlagið breyttist töluvert við fráhvarf Jóhanns Páls, sem hafði nokkuð ágengan, ófyrirsjáanlegan og aggressívan útgáfustíl. Hann setti töluverðan lit á starfsemina og hann hafði þá strategíu að gera söluhöfunda forlagsins afar sýnilega með áberandi auglýsingarherferðum. Ég veit ekki hvort efnahagur Forlagsins sé svo bágur að það dempi starfsemina. Á síðasta ári skilaði Forlagi hagnaði, þó afar litlum í samanburði við veltu. 1,5 milljónir í hagnað telst varla vera viðunandi hjá forlagi með milljarða veltu.

Hjá Forlaginu er gífurlega gott mannval – ritstjórn Forlagsins er til dæmis afar góð – en ég sakna þess að Forlagið taki á sig þá ábyrgð sem forystuhlutverk á íslenskum bókamarkaði leggur á herðar þess. Mér þætti eðlilegt að Forlagið tæki að sér að lyfta  bókamarkaðinum og fari að miðla með upplífgandi og áberandi hætti þeirri gleði sem bókmenntirnar veita. Umfjöllun um bókmenntir eru afar takmarkaðar á Íslandi. Ekkert dagblað hefur metnað til að fjalla á áhugaverðan og metnaðarfullan hátt um bókmenntir og listir. Sjónvarpsstöðvarnar hafa lítinn áhuga á þessum þætti mannlífsins. Þó hefur RÚV Kiljuna á dagskrá og ég held að það sé fremur vinsælt sjónvarpsefni. Einungis Rás 1 hefur fasta bókmenntaþætti. Mér þætti það hæfa öflugu forlagi að sýna frumkvæði í að gera almennilegt átak í miðlun bókmenntaefnis á nýstárlegan hátt, reyna að finna nýjar leiðir til að gera bókmenntir áhugaverðar. Útgáfa Forlagsins á hlaðvarpsþáttum Sverris Norland með viðtölum við höfunda var fínt skref í þessa átt en það þarf svo miklu meira til að vekja athygli á bókmenntunum á nýjan hátt. Ég velti stundum fyrir mér hvert Forlagið stefni, hver ætli sé stefna forlagins? Hvaða leið ætlar Forlagið að velja til að takast á við framtíð bókaútgáfu í landinu? Góð spurning, Snæi.

ps. Nú hef ég setið hér á kaffihúsinu mínu í tæpan klukkutíma og nú er fullt af fólki. Ekkert sæti lengur laust. Á móti mér situr japanskt par sem tekur í gríð og erg myndir af morgunveitingunum enda er avocatobrauðið fallegt myndefni. Á borðinu við hlið mér situr ung fjölskylda með ungt barn sem sett er fyrir framan iPad (teiknimynd) á meðan foreldrarnir drekka kaffið sitt. Mér á hinni hönd var að setjast ensk fjölskylda (pabbi, mamma og þrír táningar). Einn táningurinn vogaði sér að taka upp farsímann sinn og ætlaði að fara að einbeita sér að honum þegar pabbinn í fjölskyldunni greip með harðri hendi inn í þá athöfn og sagði með byrstum rómi að engir farsímar ættu að vera sýnilegir þegar fjölskyldan borðaði morgunmat. Nú yrði talað saman en ekki glápt ofan í farsíma. Hin eilífa barátta við farsímana!

pps. Í dag ætla ég að byrja á  bók eftir Yrsu Sigurðardóttur. Lok, lok og læs. Ég reyni að fylgjast með á íslenska glæpasagnamarkaðinum. Spennandi að vita hvað mér þykir um hana.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.