24 blaðsíður á 5 árum

Fyrsti dagur í París að baki. Ég skrifaði ekki eins mikið og mig hafði dreymt um í gær, þó sat ég við frá klukkan níu til að verða fimm. Ég hafði svo sem ekki reiknað með að afkasta sérstaklega miklu á fyrsta degi. Enn er ég í hálfgerðu hugarlimbói eftir Íslandsdvölina í síðustu viku. Í dag hef ég sett mér markmið sem ég verð að ná. Í mínum huga – einn af þeim hugarsjúkdómum sem ég burðast með – þarf ég að skila góðum afköstum á hverjum degi annars er tilvera mín ekki réttlætanleg (gróft sagt).

Ég las viðtal við danskan höfund í vikunni sem hefur afrekað að skrifað tuttugu og fjórar síður á fimm árum í skáldsögu sem hann vinnur að. Sem réttlætingu fyrir þessum slægu afköstum segist hann eiga um fimmhundruð síður í minnispunktum.

(Aukasetning: Ég er á kaffihúsinu mínu í Mýrinni. Við hlið mér sitja fjórir bandarískir einstaklingar og þeir tala bæði hátt og mikið og mér finnst umræðuefnin sem þau velja sér svo íþyngjandi að ég á erfitt með að einbeita mér að Kaktus-skrifum. Þau tala alltaf öll í einu. „Wow!“ „I love it!“ „I love YOU!“  „Really?!“)

Aftur að afköstum: Ég ætla að minnsta kosti að skrifa 24 síður (2000 slög pr. síðu)  á þeim fimm dögum sem ég er hér, því lofa ég.

ps. Ég var nærri búinn að gleyma að minnast á póstkort sem beið mín í póstkassanum á Søbækvej  þegar ég kom frá Íslandi á mánudaginn. Á póstkortinu var handskrifað ljóð. Mig grunar að ljóðið sé úr nýrri ljóðabók SJÓNS, Næturverk. Ég hef þó ekki haft tíma til að kanna það en ég þekki ljóðið án þess að geta staðsett það hjá ákveðnu skáldi. Myndin á póstkortinu voru grænar dyr í evrópsku landi (frekar rómantísk mynd) og á baksíðunni var þetta handskrifaða ljóð. Póstkortið var undirritað „Stríðsmenn.“ Mér þótt það svo athyglisvert orð: Stríðsmenn. Í hvaða stríði þessir póstkortamenn voru er mér ekki ljóst og ekki var ljóðið á nokkurn hátt ógnandi. Kannski voru þetta  stríðsmenn ljóðsins? Herflokkur með ljóðlistina að vopni eða baráttumenn fyrir eilífu lífi ljóðlistarinnar? En á margan hátt var ég ánægður með þessa póstkortasendingu. Í fyrsta lagi finnst mér póstkort vanmetið samskiptaform – auðvitað ætti ég og allir að senda fleiri póstkort – og svo þótti mér gaman að fá svona fínt ljóð í póstkassann.

pps. Ég leyfði mér að standa upp frá vinnu í gær og fara í klukkutímalangan göngutúr til að koma við á listasafni. Ég staldraði ekki lengi við heldur andaði bara að mér andrúmsloftinu og gekk um þessa fallegu byggingu sem hýsti safnið. Ég varð enn glaðari þegar ég  spásseraði í fimmtán mínútur þarna milli listaverkanna og svo gekk ég aftur heim á leið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.