Mildin og þokkinn

„Hvernig mundirðu lýsa gærdeginum?“ Þessa spurningu fékk ég frá félaga mínum. Tölvupóstur beið mín frá honum í morgun þegar ég vaknaði. Hann er áhugasamur um París og Parísarvist mína. Hann er áhugasamur um bókaskrif mín … ég finn að honum þykir vænt um mig. Ég hef enn ekki svarað honum því ég vil gefa mér tíma til að skrifa svarið, vanda mig við að segja frá því sem á daga mína hefur drifið, segja satt, eins og ég kalla það.

Fyrsta hugsun mín þegar ég vaknaði var um hitann og hávaðann. Ég get valið milli þess þegar ég sef á nóttunni að hafa heitt og loftlaust inn í svefnherberginu eða hleypa inn næturloftinu en um leið hávaðanum frá götunni. Ég vakna því nokkuð oft til að velta spurningunni um hvort ég eigi að opna eða loka glugganum. Það er heitt í París, 26 gráðu hiti og malbikið sýgur í sig hitann á daginn og geymir hann til að hita upp borgarnóttina. Ég bý við götu sem ekki bara er malbikuð með kolsvörtu malbiki heldur laðar hún líka til sín nátthrafna sem tala hátt og hlæja þegar þeir ganga fyrir neðan gluggann minn sem er á annarri hæð.

Ég var því ekki úthvíldur í morgun þegar ég flýtti mér af stað til að setjast á morgunverðarstaðinn minn. Kroppurinn var stífur, kannski af því að ég hef hlaupið 11 km tvo daga í röð. Ég get ekki lengur fengið morgunkaffið á litla hipsterkaffistaðnum við hliðina á Batman-íbúðinni eins og ég hef gert í nokkur ár. Hipsterarnir virðast hafa gefist upp á kaffihúsarekstri í faraldrinum. Því þarf ég að ganga í um það bil fimmtán mínútur til annars kaffihúss sem mér líkar sérlega vel við. Eigandinn er ungur vinsamlegur maður með áhuga á tónlist sjöunda áratugarins og þar eru  tvær þjónustustúlkur sem eru bæði mildar og glaðlegar. Í rauninni hefur morgunmaturinn (oftast ristað brauð með avokato) verið eina almennilega máltíðin sem ég hef látið inn fyrir varir mínar dagana hér í París. Í gærkvöldi herti ég mig þó upp og fór á ítalska staðinn í götunni minni til að borða kvöldmat. Þar var tekið á móti mér eins og ég væri týndi sonurinn sem hafði snúið til baka. Litli þjónninn frá Marseille ætlaði aldrei að hætta að hlæja og gefa mér fimmur og  ungan konan með alla eyrnalokkana ætlaði aldrei að losa faðmlögin. Ég varð hálffeiminn við þessar innilegu móttökur og veit eiginlega ekki hverju ég á að þakka þessar hlýju tilfinningar í minn garð. Maturinn var góður; kræklinga, rækjur og vongole (skelfiskur sem ég veit ekki hvað heitir á íslensku). Að vísu varð ég ekki sérlega saddur en þetta er betra en að naga löng hveitibrauð og drekka vatn allan daginn

Og skrifin. Já. Skrifin. Charlie Chaplin sagði að það væri ekkert mál að búa til kvikmyndir. Maður þyrfti bara láta aðalpersónuna rata í vandræði og láta hann svo bjarga sér úr vandræðunum. Þetta gildir kannski líka að sumu leyti um söguskrif. Ég var með ákveðna hugmynd þegar ég byrjaði á þessari bók. En eins og venjulega þegar ég kemst af stað breytist hugmyndin og nú er svo komið – eins og alltaf áður – að ég fálma í blindni. Sagan skríður áfram og ég lendi í vandræðum. Dönsk skáldkona sem ég kannast við sagði einu sinni að hún vildi heldur deyja en að skrifa skáldsögu (hún hefur samt sjálf skrifað fimm eða fleiri). Það er sumu leyti satt að maður er stundum fullur angistar þegar maður situr allan daginn og skrifar án þess að vita almennilega hvert vinna dagsins leiðir mann. Ég get ekki sagt að ég þjóti áfram, að skrifin streymi áfram eins og straumþungt fljót beinustu leið á áfangastað. Nei, en ég mjakast áfram.

En nú sit ég sem sagt á mínum ágæta morgunkaffistað. Klukkan er að verða tíu (staðurinn opnar klukkan hálftíu á laugardögum). Ég hef borðað mitt ristaða brauð. Eigandinn á frí í dag enda laugardagur. Tónlistin hans er því ekki á fóninum heldur arabísk tónlist. Sennilega hafa kokkarnir í eldhúsinu, sem líta út fyrir að koma frá Arabíu, fengið að stýra plötuspilaranum í dag. Unga, dökkhærða þjónustustúlkan gengur á milli borðanna á sinn þokkafulla hátt og ég vona alltaf að það sé hún sem taki við pöntuninni frá mér og beri til mín ristaða brauðið. Hún brosir alltaf svo fallega.

ps við hlið mér sitja ung og afar viðkunnanleg hjón. Þau eru með litla strákinn sinn með sér til að borða helgarmorgunmat. Mér finnst það samt eitthvað svo sorglegt að öll þrjú; mamma, pabbi og barn hanga yfir símunum sínum. Barnið horfir með öðru auganu á teiknimynd en foreldrarnir eru djúpt sokkin niður í eitthvað sem heldur athygli þeirra við símann. Þau hafa varla sagt orð hvert við annað.

pps ég nota kvöldin til að lesa og nú les ég barnabók JK Rowling. Ég er ekki alveg sannfærður um að það sé góð bók hjá barnabókarhöfundinum. En ég held áfram og kannski verður bókin betri.

ppps. Ég gleymi alveg að minnast á tónlistina sem ég hlusta á þessa dagana. Þegar ég skrifaði glæpasöguna sem kemur út í október spilaði ég í sífellu hljómplötu Nick Cave, Ghosteen. Þá mánuði sem það tók mig að skrifa bókina hljómaði þessi plata nánast látlaust á skrifstofunni. Þetta er í mínum huga hljóðrás bókarinnar, þessi tregi, þessir dularfullu hljómar og synthesizer-tónar Warren Ellis mynda bakgrunn sögunnar. Hér í París hef ég hlustað á nýja plötu Steingríms Teague og Silvu Þórðardóttur, More Than You Know sem ég er mjög hrifinn af. Platan verður sennilega ekki hljóðrás  bókarinnar sem ég skrifa nú, en alveg örugglega hljóðrás Parísardaganna.

dagbók

2 athugasemdir við “Mildin og þokkinn

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.