París var glóandi heit í gær en þrátt fyrir það ákvað ég að enda vinnudaginn á að hlaupa svokallað langhlaup. Í þetta sinn 10 kílómetra hlaup í mollunni. Þetta var kannski ekki svo góð ákvörðun því ég uppgötvaði í miðju hlaupi að ég hefði hvorki borðað né drukkið allan daginn. Hlaupið var óvenju nasty. 29 stiga hiti og ég varð ægilega máttfarinn strax eftir sex kílómetra. Ég jafnaði mig eiginlega ekki á þessu hlaupi í gær. Ég hafði það skítt og gærkvöldið var handónýtt. Þetta er auðvitað bara hreinn aumingjaskapur og ég á ekki að vera að væla þetta.
Á leiðinni heim frá morgunkaffihúsinu mínu í gær helltist sú tilfinning yfir mig – og það gerist stundum – að mín biði eitthvað sérlega gott; eitthvað væri um það bil að gerast sem ég ætti eftir að gleðjast mjög yfir. Það er ekki þannig þegar þessi tilfinning kemur yfir mig að ég sitji og bíði eftir að hið góða gerist. Ég nýt tilfinningarinnar og er alveg sannfærður um að ekki verði þess langt að bíða að heppnin hvolfist yfir mig eins og frelsandi regn í hitamollu. Að vísu gerðist ekkert sem umbyltandi í lífi mínu í gær, eða ég tók ekki ekki eftir neinu sem gæti haft varanlega góð áhrif á líf mitt. Nema kannski skrifin, sem gengu betur í gær og ég öðlaðist meiri trú á verkið. Ég veit ekki hvort ég get leyft mér að halda að þessi saga eigi eftir að hafa varanleg áhrif á líf mitt. Fæstar bækur vekja þannig athygli að þær breyti lífsstefnu höfundar síns. Ég fékk meira að segja skilaboð frá félaga mínum í gær (WhatsApp) þar sem hann benti mér á að fram hefði komið í einhverri skýrslu frá Penguin Random House (stærsta forlagshús heimsins) að af þeim 58.000 bókum sem þeir (starfsmennirnir) gefa út á ári seljast meira en helmingur þeirra í minna en 12 eintökum! Ég á svolítið erfitt með að trúa þessu. En þetta var skrifað í skýrslu frá forlaginu sjálfu.
Á mínum langa ferli sem bókaútgefandi (mér finnst hann langur, ferillinn) hefur mér aðeins einu sinni tekist að selja bók í færri en tólf eintökum. Ekki ætla ég að upplýsa hér um hvaða titil er að ræða, en það voru einhverjir galdrar við þá bók – sem ég held mjög mikið upp á – því við uppgjör kom í ljós að við hjá Bjarti fengum fleiri bækur til baka en við sendum út og niðurstaðan var að bókin seldist í -3 eintökum (mínus þrjú) á fyrsta ári. Þegar ég hugsa til fortíðar finnst mér enn að útgáfusaga þessarar bókar væri ein sú eftirminnilegasta á öllum mínum forleggjaraferli.
ps
ég hef heyrt (úr mörgum áttum) að jólabókavertíðin verði óvenju góð í ár. Flestar stórstjörnur íslenskra bókmennta hafa náð að klára að skrifa bók í ár. Bjartur gefur út nýjar bækur eftir Guðrún Evu Mínervudóttir og Braga Ólafsson. Ólafur Jóhann verður líka á ferðinni með nýja bók. Jón Kalman, Auður Ava Ólafsdóttir og Sigríður Hagalín gefa út nýjar bækur undir merkjum Benedikts. Ég veit ekki hvaða stjörnur koma út hjá Forlaginu. Þaðan hef ég ekkert heyrt neitt enn. Og í glæpasagnadeildinni er að minnsta kosti von á bókum frá Yrsu Sigurðardóttur og Ragnari Jónassyni. Ég hef líka frétt að Ragnar Jónasson sé búinn að skrifa samvinnuglæpasögu þar sem Katrín Jakobsdóttir (hinn geðugi forsætisráðherra) sé meðhöfundur að verkinu og að Ragnar sé líka að leggja drög að nýrri glæpasögu sem hann skrifar með Sverri Norland (hinum geðuga rithöfundi). Ég veit ekki hvað Ragnar er að hugsa ~ hann virðist vera gífurlega ákafur í að ná árangri; eltir framann eins og soltið dýr. Hann er algjör dugnaðarforkur og verkar á mig eins og hann sé í ofsafengnu kapphlaupi; að hann sé að elta uppi eitthvað sem hann hafi misst af fyrr á lífsleiðinni; leitin að hinum glataða tíma. (Ég veit ekki hvaðan ég fæ þessar undarlegu kenningar í hausinn. Ég þekki ekkert til Ragnars – ég held að hann sé í alla staði til fyrirmyndar – en ég heyrði einu sinni í honum í útvarpi og fékk þá þessa skrýtnu flugu í höfuðið.) Ég var að velta fyrir mér hvort Ragnar ætli að feta í fótspor James Patterson (bandarískur ofurmetsöluhöfundur) eða fylgja fordæmi hans. Patterson skrifar allt að átta bækur á ári í samvinnu við frægðarfólk og aðra rithöfunda. Það er ekki annað hægt en að dáðst að Ragnari fyrir einbeitni og dugnað.