Leitin að besta tímabili lífsins

Í gær skrifaði ég í þessa dagbók hér (Kaktusinn) að von væri á nokkurri bókmenntaveislu með íslensku jólabókavertíðinni. Flestar af skærustu stjörnum íslenskra bókmennta hafa lokið við að skrifa nýjar sögur og bækur þeirra eru væntanlegar í verslanir þegar jólahátíðin nálgast. Það virðist sem gjörvallur íslenski bókabransinn lesi þessa dagbók því í gær fékk ég bæði ábendingar og ég var leiðréttur fyrir saklausar rangfærslur í dagbók gærdagsins (hef leiðrétt). Ég þekki auðvitað ekki dagskrá allra íslensku forlaganna (enda ekki opinber enn) og veit því ekki alveg hvað er á leið í prentvélarnar en ég var beðinn að koma því á framfæri að von sé á nýrri skáldsögu eftir Kristínu Eiríksdóttur, sem var (ef ég man rétt) tilnefnd til Norðurlandaráðsverðlaunanna fyrir síðustu bók sína Elín, ýmislegt. Það er Forlagið sem gefur bók hennar út.

Þann 25. nóvember árið 2018 var ég staddur, eins og núna, í Parísarborg. Þann dag fékk ég óvænta heimsókn frá einum af félögum mínum í Batman-íbúðina við Rue des Tournelles. Svo skemmtilega vill til að í gær hittumst við aftur í París, ég og þessi félagi minn, og nú á frönskum veitingastað ásamt íslenskum rithöfundi og frönskum forleggjara sem ég hef þekkt lengi. Við félagi minn rifjuðum upp þessa heimsókn frá árinu 2018 þegar við sátum saman í gær og ég mundi að hann hafði lagt spurningu fyrir mig í þessari heimsókn, mikilvæga spurningu, en í gær gat hvorugur okkar munað hver þessi spurning var. Báðir mundum við þó eftir samtalinu sem spannst í kjölfar spurningarinnar. Í  gærkvöldi þegar ég hafði kvatt vini mína og lagst á koddann í rúminu mínu rifjaðist loks upp fyrir mér um hvað spurningin hafði snúist. Hún var svona:
„Hvert er besta tímabil lífs þíns, Snæi?“
Og ég mundi líka eftir hverju ég svaraði þetta nóvemberkvöld árið 2018, og svarið vakti eiginlega furðu mína þá og vekur enn í dag furðu mína í dag því svarið var svo rangt. Satt að segja á ég erfitt með að taka eitt tímabil lífs míns og segja að nákvæmlega það sé það besta. En ég man eftir fjölmörgum atvikum í gegnum árin sem kalla fram góðar tilfinningar.

Um þetta hugsaði ég í gærkvöldi þegar ég lá á bakinu undir sæng og hlustaði í Parísarskarkalann fyrir utan gluggann minn. Og skyndilega lifnaði fyrir mér atvik – undarlegt hvernig hugurinn starfar – frá árinu 2004. Þetta var sólríkur októberdagur á Ítalíu rétt við strönd Adríahafsins. Við Sus höfðum fundið lítinn, ítalskan ólífulund sem við höfðum áhuga á að kaupa. Maðurinn sem vildi selja jörðina hafði tekið á móti okkur í litlu þorpi, Vico del Gargano, lengst suður í Pugliu. Hann fylgdi okkur síðan niður í ólífulundinn, sem var í fimm mínútna akstursfjarlægð frá þorpinu. Í ólífulundinum stóðu rústir af gömlu húsi. Eftir að hafa skoðað  landareignina sem stóð í skógivaxinni hlíð fengum við okkur sæti á steinbekk við  húsarústirnar og nutum útsýnisins yfir dalinn. . Sólin lýsti upp silfruð blöð ólífutrjánna sem fylltu dalinn svo engu var líkara en heimurinn logaði. Mimmo, en það heitir maðurinn sem vildi selja okkur jörðina, stóð á fætur og teygði sig upp í fíkjutré og tíndi nokkrar fíkjur. Hann tók síðan fram vasahníf, opnaði fíkjurnar og gaf okkur bita og bita. Það var eitthvað svo notalegt að sitja þarna í haustsólinni og borða fíkjur beint af trénu. Einmitt þessi minning sótti á mig í gærkvöldi þegar ég reyndi að  finna besta tímabil lífs míns.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.