Sérhæfð áhugamál

Athugasemdir halda áfram að berast hingað vegna litlu skýrslunnar um væntanlegar jólabækur. Mér berast fleiri ábendingar um væntanlega titla og ný tíðindi af íslenskum höfundum og forlögum. Ég hef þó ákveðið að loka á þessa umræðu um væntanlega jólabókavertíð í bili að minnsta kosti. Einn þeirra sem hafði samband við mig taldi jólabókaflóðið „undarlegt áhugamál“. „Hefurðu í alvöru áhuga á væntanlegum bókum á íslenska jólabókamarkaðinn? Æ! Ætli þú sért ekki sá einasti í heiminum.“ Mér þóttu þetta hörð orð. En ef til vill er það rétt að ég sé eini maðurinn í heiminum sem hafi áhuga á þessum litla afkima mannlífsins. Miðað við þau viðbrögð sem ég hef fengið  virðist það samt ekki alveg vera svo.

Ég hef líka mikinn áhuga á ensku Booker-verðlaununum (álíka skemmtilegt áhugamál) og einmitt í gærkvöldi var tilkynnt hvaða 6 bækur væru tilnefndar til hins svokallaða „short-lista“. Höfundarnir sex koma frá fimm löndum og frá fórum heimsálfum. Og til að tryggja bókmenntagæði listans eru nákvæmlega jafnmargir karlar og konur. Sem sagt þrír karlar (þar af einn karlfauskur sem verður 88 ára í október) og þrjár konur. Ég hef aðeins lesið eina af hinum sex tilnefndu bókum það er bók Claire Keegan, Small Things Like These. Sem mér fannst mjög fín bók og ég veit að eitt íslenskt forlag hafði  samband við umboðsmann Claire fyrir nokkru með fyrirspurn um íslenska útgáfuréttinn. Ekki veit ég þó hvort íslenski útgáfurétturinn er seldur eða hvort bókin sé væntanleg í íslenskri þýðingu. Bók Claire, sem er bara 116 síður í ensku útgáfunni, er stysta bók sem hefur verið tilnefnd til þessara virðulegu verðlauna.
Enski öldungurinn Alan Garner sem á langan rithöfundarferil að baki er tilnefndur fyrir bókina Treacle Walker. Maður getur ekki annað en glaðst yfir að 88 ára gamall maður geti enn skrifað bækur sem bæði vekja athygli og fá verðlaunatilnefningar. Það er enn von þótt manni finnist árin vera að éta mann lifandi. Alan er elsti rithöfundur nokkru sinni til að fá tilnefningu til Booker.
Elizabeth Strout er sennilega þekktust þeirra sex höfunda sem eru tilnefndir. Bækur hennar um Lucy Barton og Olive Kitteridge eru metsölubækur um allan heim (milljón eintök seld) þótt enn hafi enginn íslenskur útgefandi komið auga á bækur hennar enn. Nýja bók Elizabethar, Oh, William sem er tilnefnd í ár fjallar einmitt um William, eiginmann söguhetjunnar Lucy Barton.
NoViolet Buawayo er fædd árið 1981 í  Zimbawa en fluttist ung til Bandaríkjanna þar sem hún býr enn og skrifar bækur. Bók hennar Glory er tilnefnd í ár.
Perival Everrett, sem fæddur er í Kóumbíu, er tilnefndur fyrir bók sína The Trees sem hann segir að hafi tekið sig 63 ár að skrifa. Hann er líka búsettur í Bandaríkjunum.
Sri Lanka-búinn Shehan Karunatilaka er tilnefndur fyrir bókina The Seven Moons of Maali Almeida.

Þetta var um Bookerverðlaunin 2022. Verðlaunin verða svo tilkynnt við hátíðlega athöfn (eins og sgt er) þann 17 október ári.

Ég nefni það hér að ég er kominn til Danmerkur eftir tveggja tíma flug frá París í gær. Ég er feginn að vera kominn aftur heim og óar eiginlega við því að þurfa að leggja aftur af stað því að ég þarf vera staddur aftur á Íslandi þann 13. september. Þetta er ógurlegt flakk.

Höfundarnir sex sem tilnefndir eru til Bookerverðlaunanna 2022: Perival Everett, Elizabeth Strout, NoVioleet Buawayo, Claire Keegan, Alan Garner, Shehan Karunatilaka

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.