Engin tilviljun

Ég fékk í gær senda röð ljósmynda af íslensku bókmenntafólki sem lætur mynda sig með Andrej Kurkow, úkraníska verðlaunahöfundinum. Það er gaman að sjá hvað hinn skemmtilegi og ljúfi maður, Kurkow, laðar fram falleg bros hjá flestum sem standa í ljóma hans á ljósmyndunum.

Kurkow fékk alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness í ár. Verðlaunin hafa nú verið veitt í þrígang. Fyrst vann enski rithöfundurinn Ian McEwan verðlaunin og ég man að það heyrðust nokkrar óánægjuraddir vegna vals verðlaunanefndarinnar. Ef mér skjátlast ekki var ákvörðun dómnefndarinnar fyrst og fremst gagnrýnd vegna kyns höfundarins og aldurs, ekki vegna gæða bóka hans.

Í fyrra fékk tyrkneska baráttukonan Elif Shafak verðlaunin. Shafak er þekkt fyrir mannréttindabaráttu sína, baráttu sína fyrir réttindum kvenna og baráttu fyrir tjáningarfrelsinu. Hún býr í London og kallar sjálfa sig útlaga frá Tyrklandi enda hrædd um að verða ofsótt í landi Erdogans.

Í ár var svo röðin komin að Andrej Kurkow, úkraínska höfundinum, sem varð frægur fyrir bók sína Dauðinn og mörgæsin sem kom út árið 2001 (íslensk þýðing 2005). Bókin vakti enga sérstaka athygli þegar hún kom út á Íslandi sínum tíma. Enginn íslenskur bókmenntamaður lét sér detta í hug að láta mynda sig með höfundinum þegar hann kom til landsins sama ár og bókin kom út (árið 2005) og þó má segja að höfundurinn hafi þá verið á hátindi frægðar sinnar. Tímarnir hafa sennilega breyst; sjálfan (það er að segja það ljósmyndaform þar sem maður tekur mynd með eigin myndavél af sjálfum sér, kannski með öðrum) varð til mun síðar. Ég velti fyrir mér hvort þessi bókmenntaverðlaun, hin alþjóðlegu bókmenntaverðlaun Hallldórs Laxness,  séu að verða að einskonar pólitískum bókmenntaverðlaunum. Það er í sjálfu sér í fínu lagi. Kannski það ætti bara að vera hinn opinberi merkimiði á verðlaununum svo maður viti hvað er verið að verðlauna. Þó að Kúrkow sé fyrirtaks rithöfundur og eigi allt það besta skilið getur maður að minnsta kosti ekki sagt að það sé tilviljun að úkraínskur rithöfundur fái verðlaunin í ár.

Sjálfur á ég enga ljósmynd af  Kurkow, hvorki af honum einum né með okkur tveimur á mynd, þótt ég hafi keyrt hann fram og til baka um Reykjavíkurborg á gamla Benz-bílnum mínum þegar hann kom til Reykjavíkur á bókmenntahátíð árið 2005. Ætti ég slíka ljósmynd hefði ég birt hana hér og bros mitt mundi glóa í skyni frægðarsólar hans.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.