Að gleyma ekki því sem maður hefur fyrirgefið

Ég fékk í gær langa skemmtiskýrslu um flokkadrætti og persónulegar erjur innan hinnar íslensku höfundastéttar. Ég hafði svo sem haft pata af flestu sem segir í þessu bréfi og ekkert kom mér sérlega á óvart annað en hve langræknin er oft mikil; hve saga þessarar núninga er löng og upphaf óvildar á milli manna oft hræðilega ómerkileg. Sjálfur er ég ekki saklaus af  langrækni þótt ég reyni að tala mig til og fyrirgefa. Það er ekki alltaf létt en ég reyni.

Það er sagt að gyðingamæður fyrirgefi allt og gleymi öllu, en þær gleyma aldrei því sem þær hafa fyrirgefið. Maður ætti að hafa þann þroska að móðgast ekki auðveldlega og vera fljótur að fyrirgefa. Lífið verður ekki betra ef maður ber í sér reiði og biturleika yfir því sem gerðist í fortíðinni. Maður missir bara gleðina, því hún drukknar í öllum þeim móðgunum sem maður geymir inni í sér.

Í gærkvöldi fór ég til Kaupmannahafnar í glæsilega fertugsafmælisveislu. Þar var samankominn rjóminn af þeim sem vinna í hinum danska forlagsbransa. Það var mjög gaman að hitta þetta góða fólk enn og aftur. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að hinn góði bókmennta-umboðsmaður minn, sem er með skrifstofu í Kaupmannahöfn, hafði fyrr um daginn sent kynningarefni um nýju spennusöguna mína til forlaga á Norðurlöndum og því hafði kynningarefnið hafnað á borðum boðsgesta afmælisveislunnar fyrr um daginn. Ég var alls ekki tilbúinn að fólk stríddi mér góðlátlega á því að nú ætlaði ég að hefja nýtt líf sem „alþjóðlegur metsöluhöfundur“. Þessi stríðni setti mig eiginlega svolítið úr jafnvægi og ég varð feiminn og fannst eiginlega neyðarlegt að vera mættur í þessa afmælisveislu eins og ég væri að „plögga“ fyrir bókina.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.