Það tók Stephen King meira en 30 ár að skrifa sagnabálkinn um The Dark Tower sem kom út í 8 bindum á árunum frá 1982 (The Gunslinger) til 2012 (The Wind Through the Keyhole). Þegar Stephen King hafði skrifað helminginn fékk hann bréf frá konu sem barðist við krabbamein. Hún vildi fá að vita hvernig sagan mundi enda því hún vissi að hún mundi ekki lifa svo lengi að hún gæti sjálf lesið sögulok. King svaraði bréfinu og varð að viðurkenna fyrir konunni að hann vissi það ekki sjálfur, hann hefði enga hugmynd, og því gat hann því miður ekki hjálpað henni. Hann hefði þróað með sér þá skrifaðferð að hann finni sögufræ og láti það svo spíra og vaxa og á endanum verði til skáldsaga. Í mörgum viðtölum hefur King sagst vera sannfærður um að ekki sé hægt að skapa góða sögu meðvitað og með rökvísu skipulagi. Söguþráðinn á ekki að móta fyrirfram heldur sé betra að einbeita sér að „sögufræinu“ og byggja söguna upp frá því. Hann segist byrja að skrifa sögur sínar án þess að hafa minnstu hugmynd um hvert þær stefna og hvernig þær enda.
Ég segi frá þessu hér því ég fór að efast um það sem ég er sjálfur að skrifa (eins og gerist alltaf með jöfnu millibili hjá flestum þeim sem reyna að skrifa bækur) og fór að velta fyrir mér að búa til „sögulínu“ sem ég gæti svo stutt mig við og fylgt í skrifunum. En þegar ég rifja upp orð Kings hætti ég við. Nú treysti ég á „sögufræið“.
Stephen King verður 75 ára þann 21. september og ég veit að hann hefur skrifað meira en 80 bækur. Afköstin eru ævintýraleg. Einmitt um þessar mundir les ég nýjustu bók hans FairyTail (skrifað svo á bókakápu) og er þegar sogaður inn í söguna.