Hinn hentugi brottfarartími

Þótt ég eigi sjálfur erfitt með að trúa því sit ég enn og aftur í flughöfninni í Kaupmannahöfn á leið til Reykjavíkur. Klukkan er 6:20 og ég er búinn að vera vakandi síðan klukkan 3:20. Það er enn svefn í mér og mig langar til að sofa. En svefn er ekki í boði hér í þessum flugvallarbiðsal með kaffiveitingum. Og enn á ný hlusta ég á ósamlynd hjón – þau sitja mér á hægri hönd –  kýta um hvenær sé hentugast að fara að flugvallarhliðinu, nú eða eftir átta mínútur. „Eru hjón oft ósamlynd?“ spyr ég sjálfan mig, því ég þekki eiginlega engin ósamlynd hjón „eða er það bara þegar hjón velta fyrir sér réttum tíma til  að koma sér að flugvallarhliði?“

Javier Marias, spænska skáldið, dó í síðustu viku úr lungnabólgu á spítala í Madríd. Hann varð 70 ára gamall. Þótt Javier Marias væri ekki sérlega þekktur höfundur á Íslandi  – ein bóka hans  hefur þó verið þýdd, Ástir (fæst hún nú fyrir 490 krónur á bókamarkaði Forlagsins sem er leiðinlegur vitnisburður um að bókin hafi ekki selst baun í bala þegar íslenska þýðingin kom út á sínum tíma)  – var hann einn áhrifamesti rithöfundur Spánar og oft orðaður við sjálf Nóbelsverðlaunin. Mér fannst að ég yrði að minnast á þetta sviplega fráfall mikilvægs rithöfundar hér á Kaktus því mig grunar að enginn annar íslenskur fjölmiðill mun gera það.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.