Biðspennan

Ég held að ég sé haldinn einskonar fíkn sem ég á erfitt með að losna undan. Ég kom til Reykjavíkurborgar í gærmorgun eftir flugferð frá Kaupmannahöfn og bíltúr með Sölva frá flugvellinum. Ég hafði ákveðið að heimsækja Kalman í vesturbænum á ferð minni um borgina þar sem enn var árla dags og í gær voru svo sem engir fastir dagskrárliðir hjá mér sem ég þurfti bráðnauðsynlega að sinna. Ég hafði líka mælt mér mót við Jón Karl á kaffi Vest. Þar að auki þurfti ég að afla aðfanga í búð í Reykjavík áður en ég þeysti til Hvalfjarðar. En áður en ég vissi af var ég skyndilega staddur í bókabúð Forlagsins og búinn að kaupa sex bækur. Mig vantar ekki lesefni um þessar mundir; ég er í miðri 1000 blaðsíðna bók sem mér finnst skemmtileg og verð ekki búinn með fyrr en í næstu viku. En sem sagt ég keypti samtals 1700 blaðsíður af lesefni í bókabúðinni; meðal annars bók eftir Braga Ólafsson sem ég vissi ekki einu sinni að var til. (Það hefur aldeilis verið hljótt um þessa bók sem kom út árið 2016). En mér er ekki viðbjargandi í þessari bókafíkn.

Nú er kominn nýr dagur, klukkan er sjö um morgun og sólin að koma upp yfir Botnssúlunum. Ég er búinn að hella mér upp á kaffi og rista mér brauð og nú sit ég við eldhúsborðið hér í sveitinni og skrifa dagbók dagsins áður en ég mæti á stefnumót sem ég á klukkan níu í höfuðstaðnum. Morgunútvarp rásar 1 hljómar í bakgrunni.

Ég fékk skilaboð frá stórforleggjaranum í gær þar sem hann sagði mér að bókinni minni sem kemur út í október hefði verið lestað í skip í gær einhvers staðar í Þýskalandi og hæfist nú hæg siglingu til Íslands. Bókin er væntanleg til landsins í næstu viku. Ég hlakka til þess að bókin komi út og losi mig undan biðspennunni. Mér finnst hún óþarflega lamandi þessi bið.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.