Allir tala um nýjan heim að morgni, segir söngvaskáldið í útvarpinu og ég held bara að hann hitti naglann á höfuðið því hér út um gluggann minn í sveitinni blasir við mér splunkunýr dagur, fagur eins og ævintýri. Og ég fæ eiginlega tárin í augun yfir þessari morgunfegurð og allt í einu sprettur upp í hugann tvær línur úr gömlum sálmi: „Stýr mínu hjarta að hugsa gott / og hyggja að vilja þínum.“ Svona er að vera prestssonur.
Gærdagurinn var annasamur hjá mér. Löng viðtöl frá því klukkan níu að morgni og síðasta viðtal – tveir og hálfur klukkutími – hjá hinum viðkunnanlega Snorra Björnssyni lauk ekki fyrr en klukkan hálf fimm. Snorri þessi Björnsson er sennilega nokkuð þekktur á Íslandi þótt ég hafi ekki vitað margt um hann áður en hann hringdi í mig fyrir um það bil tveimur árum og spurði hvort ég hefði áhuga á að koma í podcast-þátt hans The Snorri Björns Podcast Show. En það var þó ekki fyrr en í gær að okkur tókst að finna tíma fyrir samtalið.
Öll þessi samtöl gærdagsins – sem öll voru á sinn hátt intens – hafa sennilega eyðilagt nætursvefninn í nótt því það sótti á mig svo mikill óróleiki að ég gat ekki með nokkrum móti sofið rótt. Ég vaknaði í sífellu með nýjar hugsanir um eitt og annað sem bar á góma í gær og ekki róaði það hjarta mitt að ég hafði fengið í hendurnar tvö fyrstu eintök bókarinnar minnar. Bækurnar höfðu borist til landsins með gífurlegum hraðpósti. Hér liggja þau fyrir framan mig eintökin tvö og ég er steinhissa á því að ég hafi skrifað allan þennan texta – bókstafir, orð, setningar, málsgreinar, kaflar, upp og niður heilu og hálfu síðurnar. 393 síður. Ég er hissa. Þetta gat ég, segi ég bara við sjálfan mig eins og rödd íslenskra bókmennta síðustu þrjátíu ár sagði þegar ég gaf út fyrstu bókina mína. „Þetta gat hann.“
En nú ætla ég út að hlaupa mína 10 km eins og hinn japanski Murakami gerir á hverjum morgni. Hann hefur aldrei hlaupið á þjóðvegi 47, Hvalfjarðarvegi en það ætla ég að gera og þar er ekki einn einasti bíll á ferð svo ég hef allan veginn fyrir sjálfan mig. Ég hefði svo sannarlega boðið Murakami að hlaupa með mér hefði hann verið í námunda Hvalfjarðar.

Titill og kápa 👌
Takk, kæri Sverrir. Fallegt af þér að senda svona góð skilaboð. 😉