Tappinn

Það var ekki með vilja að ég tók mér frí frá dagbókinni þessa þrjá daga sem ég hef ekkert skrifað. Það var bara einhver tappi í mér og ég kom mér ekki að skrifum. En nú er ég sestur aftur og tappinn er horfinn. Ég hef svo sem engar skýringar á þessari stíflu; sennilega var ég bara þreyttur. Maður ætti ekki að vanmeta það tóm sem maður skapar með fjarveru sinni eða þögn. Öll erum við einstök og hvert og eitt höfum við eitthvað að fram að færa til heimsins, til fólksins okkar, til þeirra sem okkur eru kær. Það er þess vegna skylda okkar að sýna hvað í okkur býr.

Það er mér líka á móti skapi að hugsa of mikið um væntanlega útgáfu á spennubókinni sem nú er komin úr prentun og býður þess verða dreift út í bókabúðir landsins. 10. október er útgáfudagurinn og mér finnst ég stundum svolítið lamaður af þessari bið en á sama tíma veit ég að ég má ekki láta biðtímann stoppa mig. Samt næ ég ekki að slappa alveg af.

Um síðustu helgi sátu tveir einstaklingar sem ég þekki og lásu spennusöguna. Í gær fékk ég viðbrögð þessara góðu lesara. Ég ætla svo sem ekki að gefa upp hvað  lesendunum fannst, það gæti annaðhvort skilist sem mont ef ég færi að lýsa því sem þeim fannst gott eða væl ef ég færi að lýsa því sem þeim fannst ekki eins gott. Kannski fannst þeim allt framúrskarandi eða allt alveg svakaleg hörmung. En viðbrögð þeirra við sögunni voru nokkuð ólík og svo fer maður að velta því fyrir sér. Maður losnar sem sagt ekki undan ánauð bókarinnar. En ég veit að þetta lagast með tímanum.

ps. Á myndinni efst er brot úr ljóði eftir Steinunni Sigurðardóttur sem límt er á glugga flugstöðvarinnar í Keflavík. Það hefur verið þýtt á ensku svo fleiri en bara Íslendingar geti notið fleygra orða skáldsins.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.