Endurreisn frá aumingjarútínu.

Ég hef ekki verið ánægður með afköstin síðustu tvo daga, eða eiginlega hef ég ekki verið ánægður með einbeitinguna og viðhorfið til sjálfs mín og vinnunnar. Ég hef verið „eirðarlaus eins og pílviður í stormi,“ eins og segir í sönglaginu. Aftur og aftur hef ég leitað í símann minn til að lesa alþjóðlegar fréttir, íþróttafréttir, fótboltafréttir, innlendar fréttir og allt það fáránlega sem fréttaveiturnar miðla til að lokka veikar sálir eins og mig. Ég hef teflt skák, skoðað fleiri fréttir, lesið eitthvað smávegis, fengið mér meira kaffi, ristað brauð, byrjað að elda klukkan fjögur, lesið fleiri fréttir, eða þær sömu … alþjóðlegar, innlendar … alveg þangað til að ég var alveg að fara að gráta af svekkelsi. Í gær þegar ég lagðist til svefns  tók ég sjálfan mig til bæna (ég hafði þó tekið mig á í gærkvöldi). „Hverskonar er þetta, Snæi? Hvað á þetta að þýða að detta ofan í svona skelfilega aumingjarútínu? Á morgun tekurðu þig á!“

Og það hef ég gert.. Ég hef tekið mig á og byrjaði morguninn á langhlaupi. Ég ákvað að hlaupa óvenju hratt til að refsa mér fyrir aumingjaganginn og hljóp á 4:53 min/km. Að vísu var ég líka að flýta mér (ég hafði farið aðeins seinna út en ég hafði ætlað mér). Í allan morgun hef ég unnið eins og maður. Lesið og skrifað nákvæmlega eins og ég hafði áætlað. Megi ég aldrei aftur detta í þessa skelfilegu gildru sem símtækið lokkar með; síminn er freistari og alltaf tilbúinn með afþreyingu og lágorkuathafnir sem gefa ekkert annað en vonbrigði og frústrasjónir.

ps. Myndin hér efst er ljósmynd sem ég tók við sólarupprás í morgun. Nice, eins og sagt er nú til dags.

pps. Sem hluti af endurreisnardagskránni ætla ég að sjá kvikmynd Andrei Tarkovskis, Stalker sem Geoff Dyer (rithöfundurinn) talar um af svo miklum hita í frábæru viðtali á Louisiana Channel.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.