Samtal að morgni við háværa manninn.

Ég spjalla stundum við mann sem býr hér í götunni og gengur undir nafninu háværi maðurinn í minni nafnaskrá. Ég veit satt að segja ekki hvað hann heitir en hann hefur alveg á hreinu hvað ég heiti og börnin hans líka. „Hæ, Snæi,“ segir hann alltaf. „Hæ, Snæi,“ segja  börnin hans. En hann talar óskaplega hátt, svo hátt að ég heyri samtöl hans við konu sína og börn í meira en 100 metra fjarlægð þótt ég sé innandyra. Honum liggur sem sagt mjög hátt rómur. Það er annað sem einkennir þennan mann. Hann talar í alhæfingum og  maður skilur ekki alltaf samhengi þeirra alhæfinga sem hann varpar fram hverri á eftir annarri. EIns og í morgun:
„Fallegur dagur, ha?“ segir hann.
„Uhummm,“ svara ég.
„Fullkominn dagur, maður ætti að setjast á bekk í almenningsgarði og drekka sangría.“
[Ég hugsa: Hvað er aftur sangría? Er það ekki eitthvað spænskt? Ég veit að það er áfengur drykkur en hvað er sangría nákvæmlega og afhverju gerir sangría í almenningsgarði daginn fullkominn?)
„Uhumm,“ svara ég aftur. Það þarf ekki að segja annað þegar maður hittir háværa manninn.
„Óhamingjusamasta fólk sem ég hitti er þessi húðlata týpa … nennir ekki neinu og leggur aldrei neitt á sig … en hefur samt þennan svakalega metnað. Þeim finnst agalega leiðinlegt að vinna … Þetta er óhamingjusamasta fólk sem ég hitti.“
„Uhumm.“ (Ég veit að hann vinnur mikið niður í Dubai. Ætli hann hitti þessa týpu þar? hugsa ég.)

Þetta var samtal mitt í morgun við háværa manninn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.