Verkfæri til að skilja heiminn betur

Ég er miklu ánægðari með að skrifa þessa dagbók – bæta enn einum degi við – en að skrifa hana ekki. Ég hef komist að því. Suma daga ætla ég mér að halda áfram að skrifa dagbók þar til ég gef upp öndina. Stundum fæ ég þá flugu í höfuðið að ég ætla aldrei aftur að skrifa meira hér á Kaktusinn. Slíkar hugsanir spretta upp þegar ég fer í fýlu út í áhrifavalda (ég hef svo gaman að þessu nýja starfsheiti).

Í gær sagði ég frá háværa manninum sem býr hér í götunni. Ágætur maður. Samskiptamáti hans er þannig að hann eys af viskubrunni sínum, segir frá hugleiðingum sínum eða því sem hann er að fara að gera eða var að gera. Hann er hins vegar ekki sérlega móttækilegur fyrir upplýsingum frá öðrum, eða það sem maður kallar að hlusta. Um daginn sagði hann mér þau sannindi að hann læsi aldrei skáldskap. „Skáldsögur eða skáldskapur eða hvað þú kallar þetta sem þú lest … þetta ætti að greiða leið þína að heiminum … láta þig skilja heiminn betur … en bókmenntir hjúpa heiminn bara dularfullu slöri … hjúp …  í skáldskap er mystíkin mikilvægari en sannleikurinn … Stærðfræðin og vísindin, aftur á móti eru verkfæri til að skilja heiminn betur … “ Þetta fannst mér ágætt hjá kunningja mínum. „Uhumm,“ svaraði ég.

ps Myndin efst er af nýja verkefni mínu sem ég setti í gang í sólinni í  gær; ég ætla að mála svalahandriðið fyrir veturinn. En fyrst þarf að fjarlægja grænan vöxt (algea) af handriðinu áður en ég get hafið sjálft verkið: að mála.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.