Þessa dagana fer fram bókamessan í Gautaborg. Bókamessa er stefnumót útgefenda og umboðsmanna rithöfunda (að vísu gerist það af og til að rithöfundar misskilja eitthvað og ramba inn á bókamessu. Það er ekki vel séð.) Þarna fer fram kynning á nýjum bókum og umboðsmenn reyna að fá útgefendur þessa heims til að kaupa þýðingarrétt á skáldverkum eða fræðibókum til að gefa út í heimalandi sínu. Að þessu sinni hefur sú frétt kannski vakið einna mesta athygli að enn á ný finna erfingjar Stieg Larsson leið til að halda lífi í þessari miklu peningaprentvél sem bækurnar byggðar á hugmynd Stieg Larsson eru. (Millennium-ritröðin með Lisbeth Salander). Bækurnar hafa hingað til selst í meira en 100 milljón eintaka og er það ástæða þess að menn freistast til að halda lífi í ritröðinni.
Í þetta sinn er það Karin Smirnoff sem hefur tekið að sér að framlengja líf sögupersóna Stiegs Larsson og tekur hún við keflinu af David Lagercrantz sem skrifað þrjár bækur í ritröðinni. Nýja Milennium bókin kemur út þann 4. nóvember. Mun sögusviðið færast frá Stokkhólmi norður á bóginn til harðbýlla svæðis í Norður Svíþjóð. Smirnoff hefur gert samning um að skrifa þrjár bækur í seríunni. Þýðingarrétturinn seldist samstundis og tilkynnt var um ráðningu Smirnoff, bæði til Englands og Bandaríkjanna og auðvitað til annarra landa.
Karin Smirnoff sló í gegn í Svíþjóð árið 2018 með ansi magnaðri og óvæginni skáldsögu Jag for ner till bror sem var fyrsti hluti af þríleik (þríleikur; það er orðið ansi vinsælt að deila bókum sínum upp í þrjá hluta) og hlaut hún að launum hinn virðulega Augustpris. En það var satt að segja ekki Karin Smirnoff sem var sú sem fyrst var spurð um að taka við Milennium keflinu því á bókamessunni í Gautaborg birtist skyndilega sænski höfundurinn John Ajvide Lindqvist (sem varð frægur fyrir bókina Let the Right One In) og lýsti því yfir að hann hefði verið beðinn að skrifa Milennium bækurnar og hefði fengið væna fúlgu fyrir að skrifa 70 blaðsíðna útdrátt fyrir erfingja Stieg Larssons.
Mun erfingjunum víst ekki hafa þótt nógu mikið til sögunnar koma, og var sagt að „of mikið væri af nákvæmum kynlífslýsingum“ sem fældi feðgana sem stýra Milenniumveldinu frá. Niðurstaðan var sú að John Ajvide Lindqvist fékk að halda peningunum en Karin Smirnoff var ráðin til að skrifa sögurnar. John Ajvide Lindqvist er þó ekki af baki dottinn því hann mun hafa skrifað sína útgáfu af Salander-sögu og gefur líka út í nóvember þar sem Salander heitir öðru nafni og er orðinn hakkara-strákur.
Fréttir frá Gautaborg herma líka að glæpasagnaútgefendur vilji nú eiginlega bara gefa út glæpasögur þar sem tryggt er að úr verði glæpasería það er að segja að sömu persónur koma fram í hverri bókinni á fætur annarri (eins og Erlendur hjá Arnaldi, Hulda hjá Ragnari Jónassyn …} Mun þetta vera áhrif frá nýjum lestrarvenjum þar sem lesendur lesa eða hlusta í gegnum streymisveitur og finnst þægilegt að fylgja sömu persónum aftur og aftur.
ps. Ég kláraði að mála svalahandriðið í gær. (sjá mynd)
pps Ég ákvað að hlaupa 12,5 km í gær með mótorinn í hægagangi. Það var eiginlega léttir að taka því rólega eftir að hafa hlaupið langhlaup á undir 5 mín pr. km síðustu daga (4:53 min /km).