Ævintýri lífsins

Ég átti leið í verslunarmiðstöðina hér í bænum í gær og hitti þar mann, karlmann í svörtum jakkafötum og í hvítri skyrtu. Ég held að hann stýri stóru fyrirtæki og sé þess vegna svona fínn í tauinu. Við hittumst stundum á förnum vegi, ég og þessi maður, en við kynntist á tennisvellinum hér í bænum fyrir nokkrum árum. Maðurinn er sérstakur að því leyti að þegar hann talar er hann alltaf svo sannfærandi í öllu sem hann segir. Ég held að hann hafi verið kosinn formaður tennisklúbbsins – og kannski forstjóri fyrirtækisins –  einmitt vegna þess hve sannfærandi hann er. Oft velti ég því fyrir mér hvort hann hafi sannanir eða rannsóknarniðurstöður til að styðja það sem hann staðhæfir. Í gær þegar við hittumst fyrir framan sjúskað kaffihús þar sem eftirlaunaþegar bæjarins hittast daglega, sagði hann á sinn sannfærandi hátt:

„Þeir sem þjást af depurð, án þess kannski að vita það, segja oftar ég en aðrir.“
Við höfðum verið að tala um sameiginlegan tennis-kunningja okkar sem hann taldi eiga í andlegum erfiðleikum.
„Er það rétt?“ spurði ég og efinn í rómnum var örugglega of greinilegur.
„Já, það rétt. Hver er það eða hvað er það sem stýrir okkur. Þú setur upp þennan front, eða hvað maður kallar það … þessa ásjónu sem þú heldur að geri þig vinsælan, kynþokkafullan …  eftirsóknarverðan og felur eigin vangetu eða vanhæfni fyrir sjálfum þér og öðrum. Þetta er hlutverk sem þú leikur … og spurningin er hver skrifaði þetta handrit og til hvers? Hver er það sem heldur í spottana? Þú tekur þetta hlutverk að þér til að þóknast öðrum, til að gefa þeim það sem þeir vilja. Þetta er ekki gott. Þú verður dapur og leiður. En ævintýri lífs þíns … og ég meina það … er að finna þína eigin persónu og sætta þig í auðmýkt við vangetu þína og horfast óhræddur í augu við hana.“

Manninum liggur óvenju hátt rómur. Ég tók eftir því að nokkrir af ellilífeyrisþegunum sem sátu yfir kaffibollum sínum og bjórglösum höfðu snúið sér við í stólum sínum til að hlusta á þennan vin minn af tennisvellinum. Ég gat ekki annað en brosað til hans því mér þótti svo flott þegar hann talaði um „ævintýri lífs þíns“. En ég gat ekki svarað honum eða útskýrt fyrir honum af hverju ég brosti. Ég vissi heldur ekki hvort þessi greining hans mundi hjálpa hinum sameiginlega kunningja okkar í erfiðleikum sínum. En ég hugsaði með mér að sennilega fengi hann aukinn sannfæringarkraft með því að tala svona svakalega hátt.

ps hins vegar hef ég undanfarið átt í svolitlum vandræðum með að finna stefnu í skrifum mínum. Ég leita. Ég er leitandi. Ég les þjóðsögur, Þúsund  og eina nótt, glæpaseríu eftir Åsa Larsson, hlusta á nýju bókina hans Stephen King og ég les kafla og kafla í Kirsten Ekman, Atburðir við vatn (sem sumir segja að sé besta glæpasaga sem hefur verið skrifuð á Norðurlöndum). En  á morgnana byrja ég á að lesa þriðja bindi skáldverksins Om udregning af omfang eftir Solvej Balle. Ég sé sjálfur að þetta er ægileg óreiða.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.