Liðsfélagi Xavi og Iniesta.

Það hefur kólnað bæði í veðri og í hinum alþjóðlegu samskiptum og kannski er það langsótt en persónuleg afleiðing þessa hitafalls er sú að ég fann fram ullarsokkana sem Sandra prjónaði handa mér. Í gær kom í ljós að gasleiðsla í dönsku farvatni, suður af Borgundarhólmi, var sprengd í loft upp af Rússum og því hækkar hitareikningurinn enn hér á Søbækvej og var hann þó orðinn brjálæðislega hár. Þess vegna koma ullarsokkarnir nú að góðum notum.

Í gær fékk ég afar gleðilegar fréttir. Ekki veit ég hvort tíðindin marki hápunkt ritferils míns en ég varð mjög glaður yfir að Gyldendal Norsk hefði keypt þýðingarréttinn á óútkominni bók minni. Gyldendal í Noregi er stórt og mjög gott forlag og gefur út tvo af þeim glæpasagnahöfundum sem mér þykir mest til koma: Håkan Nesser og Åsa Larsson. Ég varð nokkuð upp með mér að komast í sama lið og þau (þótt ég sé auðvitað bara varamaður). Þetta er næstum því það sama og að vera kominn í sama fótboltalið og Xavi og Iniesta (þótt maður spili bara með varaliðinu).

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.