Hugarkaos og umbúið rúm

Þegar ég bý einn, er einn einhver staðar í lengri tíma til að vinna eins og kemur stundum fyrir, hef ég það fyrir reglu að búa um rúmið mitt strax og ég fer á fætur, vaska upp og ganga frá eldhúsi að lokinni hverri máltíð og ganga frá öllum bókum og pappírum sem ég nota yfir vinnudaginn í fallegan bunka á kvöldin. Allt þetta geri ég til að fá ró á hugann því ég veit að órólegur hugur á það til að skilja allt umhverfi sitt eftir í hálfkaos. Eins veit ég að óreiða og sjúsk vekur óróleika í huganum hjá mér og ég þrífst alls ekki í kaos.

Ég er langt frá því að vera heilagur  og er í eðli mínu að sumu leyti óreiðumaður. Satt að segja  þarf ég á öllum mínum viljastyrk að halda til að leyfa óreiðumanninum ekki að ná tökum á mér.

Ég segi frá þessu hér því ég fékk í gær bréf frá kunningja mínum sem skrifar líka bækur. Þessi góði rithöfundur býr í útlöndum eins og ég en ólíkt mér býr höfundurinn einn. Ég fékk leyfi til að vitna í bréfið hér í dagbókinni:

„Alveg frá ársbyrjun hef ég þurft að berjast við mikla hugaróreiðu. Hér í þessu litla koti sem ég hef leigt fram til áramóta er allt á öðrum endanum. Ekki veit ég hvað er orsök og hvað er afleiðing. Er það minn innri óróleiki sem skapar allt þetta rót, óreiðu, drasl eða er hugarástand mitt afleiðing draslaragangsins hjá mér. Hér eru bækur út um allt og þær öskra á mig; segja mér að setjast niður og lesa og læra. En ég get ekki slappað af og lesið og mér finnst ég vera að þorna upp, dragast aftur úr, verða heimskari og æ ófærari til að gera það sem ég hef ætlað mér. Dagarnir líða. Ég ráfa um og tala við sjálfa mig og reyni að ná tökum á mér. Nú hugsar þú: Af hverju ekki að taka til? Ég velti þessu líka fyrir mér um leið og ég svipast núna um í kofanum mínum. Kannski næ ég að herða mig upp. Ég læt þig vita.“

ps. ég átti enga nýja mynd til að skreyta dagbókarfærslu dagsins. Tók því fram gamla mynd sem ég tók einu sinni í Skerjafirðinum af húsi í Bauganesi. Má eiginlega segja að þessi mynd sé úr rannsóknarferð minni inn í Skerjafjörðinn.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.