Glæpasögur og ekki glæpasögur.

Ég minntist víst á það hér í þessari Kaktus-dagbók að bókin Atburðir við vatn eftir Kerstin Ekman væri talin besta glæpasaga sem skrifuð hefur verið á Norðurlöndum. Ég hef fengið nokkrar athugasemdir við þessa staðhæfingu. Flestar ganga athugasemdirnar út á það að bókin Atburðir við vatn sé alls ekki sakamálasaga eða glæpasaga heldur hreint bókmenntaverk. Auðvitað fór ég að hugsa um hvenær bók telst glæpasaga og hvenær telst bók ekki glæpasaga. Ég hef átt í vandræðum með þessi mörk þegar ég sjálfur hef reynt að setja mig í stellingar glæpasagnahöfundar. Niðurstaða af minni tilraun, Eitt satt orð, sem kemur út þann 10. október reynir sennilega svolítið á þanþol skilgreiningarinnar á hreinni glæpasögu.

Kerstin Ekman hafði sannarlega skrifað nokkrar vel heppnaðar sakamálasögur áður en hún skrifaði bókina Atburðir við vatn og leit á sig sem glæpasagnahöfund. Margir gagnrýnendur sem fjölluðu um bókina þegar hún kom út árið 1993 töluðu um að með þessari sögu væri hugtakið glæpasaga orðið víðara; mörkin milli þess að kalla bók glæpasögu og bókmenntaverk hefðu færst til með bókinni. Kerstin Ekman fékk sannarlega bæði æðstu glæpasaganaverðlaun Svíþjóðar fyrir bókina, Augustprisen sem veittur er fyrir besta bókmenntaverk ársins og þar að auki fékk hún bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bókina.

Ég man eftir fleiri bókum þar sem menn hafa ekki verið sammála um hvort bók sé glæpasaga eða hreint fagurbókmenntaverk. Hver man ekki eftir bók Umberto Eco, Nafn rósarinnar um morð á munkum, bók Peter Høeg Lesið í snjóinn, og jafnvel bók Thors Vilhjálmssonar Grámosinn glóir sem Svart á hvítu auglýsti grimmt sem fyrstu sakamálasögu Thors Vilhjálmssonar.

Annars fékk ég skemmtilegt bréf frá einum af lesendnum Kaktussins þar sem hann sagði frá því að hann hefði orðið allæstur yfir þeirri yfirlýsingu minni að Atburðir við vatn væri besta glæpasaga sem skrifuð hefði verið á Norðurlöndum: Hann gerði alls konar ráðstafanir til að verða sér út um eintak af  bókinni en fann hvergi. Svo segir hann:

… ég las nefnilega Kaktusinn þann morgun og færsluna um „bestu norrænu glæpasögu allra tíma“ eða eitthvað í þeim dúr, Atburðir við vatn eftir Kirsten Ekman. Þetta gerði mig mjög forvitinn, besta norræna glæpasaga allra tíma? Ég hafði aldrei heyrt um þessa bók og langaði strax til að lesa hana en þegar ég sló nafn höfundarins inn í leitir.is kom bókin ekki upp nema á sænsku. Þannig að ég pantaði hana sem „sample“ í Amazonbrettið mitt og furðaði mig á að þessi bók hefði ekki verið þýdd. Síðan bruna ég út í HÍ … og er að rölta  niður stigann og kem niður í anddyrið á fyrstu  hæð. Þar á miðju gólfi – skammt frá hrúgu af bókum sem fólk losar sig við til að gefa – lá ein bók stök á borði, nánast eins og henni hefði verið stillt upp þarna: Atburðir við vatn, í íslenskri þýðingu. Þetta var stórundaleg upplifun. Ég tók eintakið að sjálfsögðu  með mér heim – gaf mér það að hún hefði upphaflega verið í gefins  hrúgunni.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.