Ég gleymdi að ég ætlaði að minnast á annað. Á fimmtudaginn þann 6. október verða Nóbelsverðlaunin í bókmenntum veitt enn einu sinni. Það gerist sem sagt árlega. Til að gera langt mál stutt virðist svo vera að sá norræni rithöfundur sem þykir líklegastur til að hljóta þessi heiðursverðlaun í ár sé engin önnur en Kerstin Ekman sem nú er orðin áttatíu og níu ára. Sjálf sat Kerstin Ekman í Sænsku akademíunni, stofnuninni sem velur Nóbelsverðlaunahafa. Árið 1989, þegar nóbelsnefndin fjallaði um mál Salman Rushdies, sem þá hafði fengið dauðadóm múslímsku klerkaklíkunnar fyrir að móðga sjálfan spámanninn, yfirgaf Kerstin Ekman Akademíuna fyrir fullt og allt í mótmælaskyni við því að nefndin vildi ekki tjá sig um mál Rushdies og neitaði þar með að veita honum stuðning. Kerstin Ekman lét ekki bjóða sér slíkt hugleysi.
Ef Kerstin Ekman fengi nú verðlaunin í ár væri það aldeilis falleg slaufa á glæsilegum ferli.
ps. Ég fékk þessa mynd senda í gær (sjá efst). Þetta er kynningarmynd fyrir hlaðvarpsþátt af hinum nefstóra dagbókarskrifara. Á myndinni sést að ljósið kemur að ofan, það er greinilegt á því hvernig skugginn frá kónganefinu fellur á hökuna. Ég er örugglega að segja frá einhverju sem mér þykir hlægilegt. Að minnsta kosti missi ég hlátur út úr mér um leið og hinn viðkunnanlegi podcaststjóri, Snorri Björnsson, beinir að mér myndavélinni sinni og smellir af. Þetta er kannski ekki heppilegt augnablik fyrir ljósmyndun, ég veit ekki, ljósmyndaaugnablikin er oft óheppileg. En ég fékk sendar athugasemdir með myndasendingunni; að ég væri of glaðhlakkalegur. Mig vantaði allt kúl með því að vera svona brosmildur. Ég ætti að vera þungur og dularfullur á myndum, bera heimsins þunga á herðunum. Það er kannski rétt fyrir einhverja að daðra við þá ímynd og sennilega eru margir meðvitaðir um það þegar þeir stilla sér upp fyrir framan myndavélar. En mér er það alveg ómögulegt. Ég brosi svo oft og mikið að fólk heldur að ég lifi í sérstökum heimi bjartsýni og jákvæðni.