Hinn kynþokkafulli dagblaðslesandi.

Ég hljóp ekki í morgun enda hafði ég ekki áætlað langhlaup í dag. Í stað þess fékk ég mér langan göngutúr út á akrana. Hugmyndin var að heilsa upp á hestana þrjá sem ég gef stundum brauð en þeir búa í skógarjaðrinum og eru á beit þar í litlum afgirtum haga. Ég var snemma á ferðinni í morgun og kannski þess vegna voru engir hestar; ef til voru þeir enn að hvíla sig og voru ekki komnir út til að bíta gras.

Á göngu minni til hestanna þarf ég að fara eftir ansi fallegri götu sem heitir Rolighedsallé. Þar býr kunningi minn sem ég spila stundum tennis við. Hann stóð í morgun við póstkassann sinn þegar ég kom upp götuna og var að veiða dagblaðið upp úr póstkassanum.
„Þetta er best við helgarmorgnana,“ sagði hann glaðlega  og veifaði dagblaðinu framan í mig. „Að sitja lengi yfir dagblaðinu á helgarmorgni með morgunkaffi. Mér finnst það alveg æðislegt.“
„Uhumm,“ sagði ég og þekkti alveg tilfinninguna. Sjálfur var ég búinn að lesa Politiken fyrr um morguninn.
„Mér finnst eitthvað notalegt þegar fólk sekkur sér ofan í dagblað en ég hata þegar fólk dettur ofan í símana sína. Það er eins og fólk geti ekki látið vera með að stara á þennan símaskerm. Hvert sem ég lít er fólk ofan í símanum sínum: í lestinni, við borðin á veitingastöðum, á biðstofum … Fólk telur sér trú um að það geti vel látið það eiga sig að stara í símann sinn en það getur það bara ekki. Þetta er alveg það sama og sumt fólk getur ekki hætt að drekka eða taka eiturlyf … Og maður veit vel að það er ekkert mikilvægt sem er í gangi á þessum skermi, ekkert mikilvægt. Fyrst þegar maður fékk svona síma var maður í góðri trú um að allt sem gerðist á símaskjánum væri kraftaverk og töfrar og stórkostlega þýðingarmikið en nú veit maður vel að þetta er bara eins og að hanga yfir sjónvarpinu. Mér finnst þetta svo veikt, slappt og vorkunnvert þetta eilífa símagláp. Ekkert er eins kynþokkalaust og maður yfir síma. Hins vegar finnst mér fólk sem les bók eða dagblað eða er djúpt sokkið í samtal gífurlega kynþokkafullar verur. Ég átti smartphone en ég var svo lélegur að stjórna mér að ég henti honum í sjóinn  fyrir mörgum árum og hef ekki eignast annan.“
„Ég ætti kannski bara líka að henda símanum mínum í sjóinn,“ sagði ég. „Ég er líka veiklundaður og dett stundum í símann minn.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.