Söluverð: 1 króna.

Ég hef kannski sagt það áður en mér verður oft hugsað til hins íslenska Forlags þegar ég horfi upp á ófarir Gyldendal, flaggskips dönsku bókaútgáfunnar í hundrað ár. Gyldendal er stærsta forlag Danmerkur og hefur alla tíð verið í forystu bókaútgáfunnar í landinu. Það hefur staðið hæst í virðingarstiganum og það hefur lagt línurnar þegar bókmenntir eru ræddar. En svo er ekki lengur. Allt er í niðurleið, búið að reka forstjórann, stjórnarformaðurinn er undir töluverðri pressu um að segja af sér, höfundarnir flytja sig yfir á önnur forlög og starfsmennirnir eru annað hvort reknir eða leita annað. Þetta er sem sagt skelfileg staða. Með þessu er ég ekki að segja að eins sé komið fyrir Forlaginu. Ég er bara að benda á hættuna sem stærsta forlag Íslands stendur frammi fyrir nú þegar allt virðist breytingum undirorpið á bókamarkaðinum. Ég held að það væri góð hugmynd hjá stjórn Forlagsins (af því að það er enn stærst og áhrifamest á Íslandi) að setjast niður og skoða eigin rekstur, eigið rekstrarumhverfi, rekstrarmarkmið Forlagsins, listræn markmið og ekki síst hvaða fingraför Forlagið vill setja í íslenskt bókmenntalíf.

Kannski náði niðurlæging Gyldendal hámarki í síðustu viku – og það er nú ástæða þess að ég minnist á þetta hér – því Gyldendal neyddist til að selja bókastreymisveitu sína Chapter (samkeppni við Storytel) fyrir 1 krónu (að vísu dönsk króna).

Fyrir um það bil tveimur árum ákvað Gyldendal að stofna eigin streymisveitu. Taldi þáverandi forstjóri Gyldendal að ef forlagið ætlaði að halda forystuhlutverki sínu yrði það að stýra og stjórna eigin streymisveitu fyrir bækur. Hann taldi að Storytel (sem á Peoples Press forlagið í Danmörku) hefði náð allt of miklum völdum á danska bókamarkaðinum og gæti stýrt að miklu leyti hvaða bækur næðu vinsældum og sölu. Þetta gat Gyldendal ekki sætt sig við og stofnaði því Chapter.

Í stuttu máli tókst Gyldendal ekki ætlunarverk sitt að halda forystuhlutverki sínu og ná fyrri völdum með Chapter því Gyldendal vanmat gersamlega hversu gífurlega dýrt og flókið það er að koma slíkri streymisveitu á koppinn. Streymisveitur eru í eðli sínu miklu frekar hugbúnaðarfyrirtæki en menningarstofnun. Og kostnaðurinn við að halda úti her forritara er miklu hærri en að halda úti sama her af bókafólki. Að skapa traustvekjandi nafn á streymisveitu þar sem bókaunnendur treysta því að fá það nýjasta, besta og sömu fjölbreytni og hjá risunum á markaðinum kostar fúlgur fjár. Niðurstaðan var sú að peningarnir fossuðu út hjá Chapter en straumur nýrra áskrifenda var álíka sterkur og í lekum krana. Einn dropi í einu. Sem sagt allt of fáir áskrifendur.

Það hefur væntanlega verið sárt fyrir stjórn Gyldendal að samþykkja söluna á Chapter fyrir 1 krónu til Saxo (netbókabúð og streymisveita í eigu Politiken). Þar með tekur Politikens forlag enn eitt skref í framúr Gyldendal.

Á Íslandi er það Storytel sem hægt og bítandi virðist vera að ná undirtökunum í íslenskri bókaútgáfu. Velta Storytel eykst ár frá ári, fleiri og fleiri bókatitlar koma út undir merkjum Storytel. Hlutdeild hljóðbóka í bókmenntaneyslu landsmanna stækkar og þá er ekki ónýtt að geta stýrt því að miklu leyti á  hvaða bókmenntaverk landsmenn velja að lesa eða hlusta á.

ps. Ég las líka einvers staðar að breytingar hafi orðið á Angústúru forlaginu í síðustu viku. María Rán Guðjónsdóttir verður nú ein við stýrið á forlaginu og Agla Magnúsdóttir, sem áður hafði líka haldið í stýripinnann, snýr sér að öðru. Án þess að hafa mikið vit á rekstri Angústúru held ég að þetta geti verið framfaraspor fyrir forlagið. Einn stjórnandi. Það verður spennandi að sjá hvaða skref María Rán stígur, eða í hvaða átt hún sveigir stýrinu, og hvort henni takist að styrkja Angústúru enn frekar. Ég viðurkenni að þegar ég las um breytingarnar hjá Angústúru lá við að mig langaði aftur að taka þátt í íslenskri bókaútgáfu. Það gerist ekki oft.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.