Það er miðvikudagur, góðan daginn. Í gær fékk ég fjórðu sprautuna í baráttunni gegn kórónaveirunni. Ég finn vel fyrir áhrifum ónæmislyfsins tæpum sólarhring eftir að hafa fengið því sprautað í æð. Nú þegar ég sit hér og skrifa er ég ekki alveg heill heilsu. En í stað þess að halda áfram að leita eftir samúð ætla ég að minnast á nokkuð athyglisvert framlag skoska glæpasagnahöfundarins Val McDermid til bókmenntahátíðarinnar í Edinburgh fyrr í haust.
Á sviðinu í Edinburgh, fyrir framan mörg hundruð áhorfendur, sagði McDermid frá því að hún hefði fengið bréf frá stofnun sem kallast The Christie Estate (sem sagt Stofnun Agöthu Christie) þar sem henni var hótað lögsókn héldi hún áfram að nota titilinn „The Queen of Crime“ eða glæpasagnadrottningin. Hótunin kom með öðrum orðum frá erfingjum Agöthu Christie. Í bréfinu kom einnig fram að erfingjarnir hefðu árið 2013 keypt og látið skrásetja einkarétt þeirra til að nota þennan titil.
Val McDermid: „Ég fékk líka annað bréf. Það var frá barnabarni Agöthu Christie þar sem hann sagði: „Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég varð fyrir miklu áfalli þegar ég sat í lestinni sem keyrði inn á Waterloo-brautarstöðina og við mér blasti stór auglýsing þar sem á stóð „Ný bók frá glæpasagnadrottningunni“. Auðvitað vissi ég að amma hafði ekki skrifað nýja bók en þegar ég sá mynd af yður varð ég afar leiður. Þú mátt ekki halda að lögsóknin gegn yður sé persónuleg en við verðum að verja okkur fyrir slíkum áföllum og vernda nafn og arfleifð ömmu okkar.“
Agatha Christie náði að skrifa 66 glæpasögur og 14 smásagnasöfn sem hafa selst í mörg hundruð milljónum eintaka. Val McDermid hefur hvorki skrifað jafn margar bækur og Christie né náð að selja nema 17 milljónir eintaka á 40 tungumálum. Kannski finnst erfingjunum þetta of snautlegt og af þeim sökum geti Val McDermid ekki kallað sig drottningu.
Enska forlag Val Mc Dermid brást snarlega við hótuninni og lét prenta gífurlegt magn af stuttermabolum með slagorðinu: Val Mc Dermid „Quine of Crime.“
Ég er í vafa um hvort titillinn glæpasagnadrottning sé notaður í auglýsingum fyrir íslenska höfunda sem skrifa glæpasögur. Menn verða að vara sig. Sennilega er þó titillinn notaður á Yrsu Sigurðardóttur eins og kóngurinn er án efa notaður á Arnald Indriðason. En það er enginn vafi á hver íslenski glæpasagnakrónprinsinn er. Það er bara einn sem hefur fengið þann titil og spurning hvort maður ætti að fá lögvernd á hann fyrir Jón Hall.