Donna Tartt er hættuleg.

Nú er ég á leiðinni til landsins í þeim erindagjörðum að taka þátt í að  kynna bók mína sem kemur út á mánudaginn. Mér finnst mjög flott hvernig Bjartur stendur að því að senda bókina út í heiminn. Ég finn hvað þau hjá Bjarti trúa einlæglega á bókina og að hún eigi eftir að rata víða. Í tilefni útgáfunnar hefur forlagið skipulagt útgáfuhóf í Ásmundarsal (flottara verður það varla) á mánudagssíðdegi (klukkan 17:00 og allir lesendur Kaktussins eru hjartanlega velkomnir). Ég er auðvitað frekar taugaspenntur, hræddur um að enginn mæti í útgáfuhófið (þessa hræðslu þekkja víst flestir sem standa fyrir svona opnun) en ég vona auðvitað að sem flestir komi. Auk þess eru skipulögð viðtöl í vikunni og meira segja kynnti ég útgáfuhófið á hinum mikla áróðursmiðli facebook í fyrradag.

Þessi athygli sem ég og forlagið leita eftir, á sennilega betur við aðra en mig, en ég hef ákveðið að taka hikandi þátt í leiknum og láta fólk vita af því að mín fyrsta spennusaga er að koma út og ég vilji að fólk lesi hana, kaupi hana,  gefi hana, tali um hana, mæli með henni … En um leið og ég óska alls þessa verður mér hugsað til Donnu Tartt, ameríska höfundarins (The Secret History, The Little Friend, The Goldfinch). Hún er stórkostlegur höfundur og  sendir bók frá sér á um það bil tíu ára fresti. Þegar hún gefur út bækur sínar spyrja blaðamenn sig gjarnan: „Hvar er Donna Tartt?“ Og það er ekki létt að hafa upp á henni. Það eina sem hún gerir til að vekja athygli á sér er að vilja næstum ekki koma fram. En tíunda hvert ár er hún veidd fram úr myrkrinu (hún með nýja bók undir handarkrikanum)  en hún er fljót að láta sig hverfa aftur niður í sína dimmu holu þar sem hún skrifar bækur sínar.

Amerískur blaðamaður, Richard Joseph, hefur tvisvar öðlast þann heiður að fá leyfi til að taka viðtal við Tartt. „Ég hef tekið tvö viðtöl við Donnu. Um leið og samtalið fer að nálgast eitthvað persónulegt byrjar hún að segja frá einhverju í mjög löngu máli sem er algjörlega óskylt bókinni og henni sjálfri. Þegar ég hitti hana árið 2003 sagði hún mér t.d. frá dönskum frænda sínum sem fannst honum loks líða vel í Mississippi þegar gífurlegur ísstormur skall á fylkinu. Hún hefur líka sagt mér frá skoskri langömmu sinni, líka í mjög löngu máli.“

Fyrir skömmu var Tartt boðið að taka þátt í frægum amerískum podcastþætti (hliðstæður The Snorri Björns podcast show) þar sem fjalla átti um Bennington College en þar  gekk Tartt  í skóla (eins og fleiri rithöfundar: Bret Easton Ellis, Jonatham Lethem …) Hún afþakkaði enda vissi hún að þáttastjórnendurnir höfðu fengið hana á heilann og spekúleruðu ansi mikið í hverjir (eða hverjar) hefðu verið kærastar Tartt í skólanum, hvaðan hún fengi fatastílinn, hvaða pólitísku skoðanir hún hafði … En hún lét sér ekki nægja að neita að veita viðtali heldur sendi hún þáttastjórnendunum bréf þar sem hún hótaði að ef þeir dirfðust að segja einhverja vitleysu um hana yrðu þeir lögsóttir og hún mundi ekki linna látunum fyrr en þeir sætu alsnauðir í fangelsi einhvers staðar fjarri mannabyggðum.  Donna Tartt er hættuleg.

En ég hef sem sagt ákveðið að múra mig ekki inni þótt ég gefi út bók. Þótt þögnin og dulúðin geti verið heppileg leið til að vekja athygli á verkum sínum. Ég held  til dæmis að Arnaldur Indriðason, sem veitir nánast ekki viðtöl, geri rétt í að halda sig til hlés. Hann tapar engu á því að láta lítið fyrir sér fara en sleppur um leið við þennan oft hlægilega fjölmiðlasirkus sem er í kringum útgáfu á bókum og öðrum listaverkum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.