„Snöggur oní, snöggur upp úr“

Þá rann hann upp, útgáfudagurinn. Ég svaf rólegur í nótt þótt bæði Effi og Árni Matthíasson hjá Mogganum höfðu látið mig vita að bókadómur yrði birtur í dag í dagblaðinu. Ég hafði meira að segja ákveðið með sjálfum mér að kíkja ekkert á bókadóminn fyrr en ég væri búinn að hlaupa 10.10 km í tilefni dagsins. Ég hafði vaknað snemma, og dró gardínurnar frá rétt upp úr sex til þess eins og horfa út í myrkrið í sveitinni og hlusta á haustvindana ýla. Ég lagðist aftur upp í rúm og las í þessari undarlegu bók sem liggur á náttborðinu hjá mér: „Minningar um minni“ eftir rússnesku skáldkonuna Mariu Stepanovu. Klukkan 6:29 barst tölvupóstur frá útgefandanum Pétri Má. Hann er árrisull, hugsaði ég, algjör morgunhani. En þar kom bókadómurinn í heild sinni í einum tölvupósti frá útgefandanum. Ég get auðvitað ekki verið annað en ánægður með dóminn og niðurstöðu ritdómarans. Bókmenntadómari Moggans hefur að vísu nokkuð aðra sýn en ég á bókina, viðburði hennar og á þær hugmyndir sem ég hef um glæpasögur en hann er ekkert nema  jákvæðnin og segir ekki eitt hnjótsyrði um skrifin. Ég get ekki annað en verið ánægður. Langhlaupið kom sem sagt að þessum sökum eftir að ég las dóminn.

Síðdegis í dag er svo útgáfuhófið í Ásmundarsal. Ég er óvenju rólegur yfir því.  Í gær bárust mér ansi margar tilkynningar frá fólki sem boðaði komu sína. Ég hafði auðvitað ímyndað mér að ég stæði einn í listasalnum með bókina mína í fanginu og enginn annar en börnin mín kæmu. En ef ég á að trúa fólki, og því skyldi ég ekki gera það, þá verður fjölmenni á staðnum mér til ólýsanlegs léttis og ánægju. Ég verð á landinu í tæpa viku, gef mig allan í þessa bókakynningu og svo fer ég aftur til Danmerkur. Í morgun fékk ég bréf frá kunningja mínum sem benti mér á að það væri óholt fyrir mann eins og mig að baða mig of lengi í jólabókaflóðiinu. „ég held að það eigi að nálgast þetta jólabókaflóð eins og Nietzsche sagði einhvers staðar að hann nálgaðist hugmyndir sínar – eins og kalt bað, snöggur oní, snöggur upp úr! Ekki sitja á þeim eins og hæna á eggi.“

En þetta er sem sagt útgáfudagurinn, dagurinn sem ég er búinn að bíða – og hlakka til –  eftir í nokkurn tíma. Til hamingju, Snæi minn með bókina. Þetta gastu. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.