Besta íslenska kvikmyndin?

Ég get ekki annað sagt en að ég hafi bæði verið undrandi og glaður yfir hve útgáfuhátíðin heppnaðist vel fyrir bókina mína í Ásmundarsal í gær. Ég hafði óttast hið versta; að ég stæði einn í salnum og biði eftir fólki sem svo kæmi ekki. En ótti minn var óþarfur því það streymdu til mín gestir í hundaraðavís og ég fann að hvað það er stór hópur fólks hér Íslandi sem enn sýnir mér stórkostlega góðvild, vináttu og mikið örlæti. Ég var ægilega glaður yfir móttökunum. Ég var svo glaður að þegar ég kom hingað í Hvalfjörðinn í gærkvöldi að lokinni dagskrá – hafði kvatt allt þetta góða fólk  og fengið mér kvöldmat með börnunum mínum og börnunum þeirra –  að ég fann að bæði hjarta mitt og og æðar voru stútfullar af adrenalíni. Ég var „helt op at køre“ eins og Danirnir segja. Ég lagðist samt til svefns, las í stutta stund og sofnaði síðan. Þegar ég vaknaði (og þá var enn nótt) var ég enn svona fullur af gleði og spenningi að ég gat auðvitað ekki sofnað aftur. Svona er að vera spennusagnahöfundur. Bara fjör.

Á laugardagskvöld – ég hafði ætlað að vera búinn að segja frá því – fór ég að sjá frumsýningu myndarinnar Sumarljós og svo kom nóttin eftir Elfar Aðalsteins. Myndin er byggð á bók Jóns Kalmans sem kom út að ég held árið 2005. Í stuttu máli held ég að þessi kvikmynd eigi eftir að slá gersamlega í gegn, sérstaklega í útlöndum. Þetta er stórfín og gífurlega falleg kvikmynd og leiðin sem Elfar velur til að koma skáldverkinu á tjaldið er hugvitssamleg og hjartahlý. Þetta var frábær kvöldstund í bíóinu. Ég hafði verið kvíðinn þegar ég settist inn í kvikmyndasalinn – það er ekki auðvelt að kom bók á mynd, hugsaði ég, það heppnast sjaldan vel. En mikið var stórkostlega gaman í bíó. Í rauninni held ég að þetta sé bara besta íslenska kvikmynd sem ég hafi séð. Hreinlega.

ps og nú held ég af stað til Reykjavíkur. Spennusagnahöfundinum bíður mikil dagskrá. Yo!

pps Í gærkvöldi  byrjaði ég að lesa bókina Játningar eftir Rousseau sem Pétur Gunnarsson hefur nýlokið við að þýða. Rosalega líst mér vel á þessa bók. Auðvitað er íslenskan á bókinni eins og hunang. Frábær þýðing hjá Pétri.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.