Það er kominn hversdagur í lífi hins nýbakaða spennusagnahöfundar. Enginn athygli í dag, engin viðtöl, enginn hátíð, enginn nýr jákvæður ritdómur. Nú þarf spennusagnahöfundurinn bara að einbeita sér að að halda uppi eigin fjöri; vera glaður yfir því sem er eða tilverunni eins og hún er. Heimurinn snýst áfram (ekki bara í kringum spennusagnahöfundinn), ég vakna, ég hleyp, ég sest niður og skrifa, ég leggst niður og les, ég sest aftur upp og svara rafsamskiptum, fer út að ganga og skoða hvernig náttúran hérna í Hvalfirðinum býr sig hægt og rólega undir veturinn.
Það var eiginlega alveg furðulegt hvað ég var þreyttur í gærkvöldi þegar ég kom aftur hingað í kotið eftir bæjarferð. Ég var örmagna; ég hef held ég aldrei fyrr haft þessa svakalegu þreytutilfinningu. Ég þurfti nauðsynlega að svara erindi sem mér hafði borist og ég mátti ekki slá því á frest. En ég kvaldist (og ég er ekki að ýkja) yfir því að þurfa að setjast aftur niður til að sinna þessu litla verkefni. Ég var satt að segja algerlega bimms og búinn á því, eins og maður sagði í gamla daga.