Hjólað í suma en ekki aðra

Ég hélt útgáfuveislu um daginn og þangað komu margir og héldu upp á daginn með mér. Suma þekkti ég mjög vel (þangað kom fjölskylda mín og nánir vinir), suma þekkti ég minna en alla þekkti ég. Ég reyndi að heilsa upp á veislugesti en náði eins og gerist og gengur að tala mislengi við fólk. Einn af þeim sem ég flokka undir ágæta kunningja mína kom að máli við mig. Ég veit ekki alveg hvað gerðist, hvort ég missti af innganginum eða hvort hann byrjaði bara svona bratt, en hann sagði bara allt í einu við mig. Eiginlega upp úr þurru:
„Hann þarna, náunginn sem skrifaði Arnaldur Indriðason deyr hann hjólar í alla, háa sem lága en hlífir þó alveg tveimur einstaklingum,“ sagði maðurinn.
„Já, er það?“ svaraði ég án þess að hafa hugmynd um í hvað maðurinn var að vísa því ég vissi ekki að bókarhöfundurinn með krullaða hárið hefði hjólað í einhverja og þar af leiðandi enn síður í hverja hann hafði hjólað.
„Já, hann hjólar í alla nema auðvitað Gísla Martein og Egil Helgason. Það eru einu mennirnir sem hann þorir ekki að hjóla í. Þetta eru valdamestu menn Íslands.“

Nú er orðið nokkuð liðið frá því að útgáfuhátíð bókar minnar var haldin (fjórir dagar) en þessi orð mannsins hafa setið í mér síðan þá, því ég á einhvern veginn erfitt með að trúa því að það geti verið að íslenskt menningarlíf lúti slíkri ógnarstjórn Gísla Marteins og Egils Helgasonar að fólk sé hrætt við þá.

dagbók

Ein athugasemd við “Hjólað í suma en ekki aðra

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.