Sólgleraugu og jaðarsport.

Það hefur verið hlé á dagbókarskrifum í rúma viku. Ég hef ekki eina skýringu á því en ég hef verið í fríi upp í fjöllunum á Spáni, langt inni í skógi og þegar ég er í fríi er ég sífellt á ferðinni eða á einhverju iði. Ég sest því ekki niður og skrifa.

Heimkoman frá Spáni var ekki sérlega góð. Heimilið var ein rjúkandi rúst eftir heimsókn innbrotsþjófa sem tókst á einhvern hátt að brjóta sér leið inn í húsið og komast framhjá öryggiskerfinu. Þjófarnir spenntu upp glugga, smeygðu sér inn í mannlaust húsið, vöfruðu um á skítugum skóm og rótuðu í skápum og skúffum í leit að verðmætum. Þeir tóku með sér tölvu, skartgripi, smávegis af útlendum peningum, sólgleraugu, myndavél  og eitthvað annað smálegt.

Þegar ég kom upp á skrifstofu mína var þar allt á öðrum endanum, pappírar, ritföng og bækur um öll gólf, skúffur opnaðar og tæmdar. Á borðinu mínu stóðu enn bækur Linn Ullmann, Herthu Müller, Braga Ólafssonar, Sjóns, Per Olov Enquist, Colm Tóibín og þýðing Péturs Gunnarssonar á Játningum Rousseau. Ég var steinhissa á að þjófarnir skyldu ekki taka bækurnar með sér; þeim yfirsást þessi mikil happafengur. Ég var auðvitað dauðfeginn, en skildi ekkert í því að þeir skyldu ekki stinga af með þennan mikla fjársjóð. Og handrit að nýrri bók höfðu þeir heldur ekki mikinn áhuga á. Þeim tókst að dreifa blaðsíðunum út um öll gólf, trampa á þeim  (Kalli Blomkvist hefði verið fljótur að gera sér grein fyrir að skóför eru mikilvæg sönnunargögn) og meira að segja henda sumum blaðsíðunum út í garð. Skrifin voru þeim einskis virði. Þetta sýnir auðvitað það sem ég hef áður minnst á: bókmenntirnar eru á undanhaldi 😉

Auðvitað eru bókmenntir á undanhaldi. Þjófar hafa skiljanlega meiri áhuga á tískusólgleraugum en ómetanlegum bókmenntaverkum. Það er heldur ekkert skrýtið þegar bækur eru ekki lengur lifandi og mikilvægur þáttur í lífi nema örfárra. Bókmenntir eru  álíka mikið jaðarsport og pílukast eða bogfimi. Í ljósi þessa er kannski agalega ósanngjarnt að pílukastsáhugamenn hafa ekki sinn íslenska pílukastsjónvarpsþátt, sína Kilju, sem héti auðvitað ekki Kiljan heldur Pílan eða eitthvað slíkt. Þeir hefðu sinn Egil, sinn umsjónarmann sem væri að springa úr áhuga á hinum ólíku sjónarhornum pílukastsins. Pílukastsáhugamenn gætu sest fyrir framan sjónvarpsskjáinn einu sinni í viku, eins og bókabéusarnir, fullir tilhlökkunar, gleði og eftirvæntingar.  En talandi um Kiljuna; ég er enn miður mín yfir því hvað mér tókst illa upp þegar ég fékk tækifæri á að sitja í sjónvarpssal andspænis hinum þrautreynda umsjónarmanni og kynna bókina mína þar fyrir tveimur vikum. Ég var bara ekki í essinu mínu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.