Næturheimsókn Kolbrúnar

Ég er með seinni skipunum í dag við Kaktusskrif en samt hef ég ekki gert neitt af viti. (Jú, ég borðaði hádegismat með gamla Gyldendals-forstjóranum Johannesi Riis inni í Kaupmannahöfn. Það var gaman.) Tölvupósturinn hefur verið að stríða mér og ég hef eytt (sjá orðaval) deginum í að reyna að laga hann. Barátta mín endaði með að ég er kominn með nýtt netfang snar@kaktusinn.is (allir sendi mér vinsamlegast póst á nýja netfangið.) Að fást við tölvuvandamál, þar sem ég þarf að muna helling af lykilorðum, er auðvitað það sem reynir einna mest á taugarnar í mér og líklega hvers nútíma borgara.

Í sjónvarpsþættinum Kiljan var fjallað um nýju bókina mína EITT SATT ORÐ. Bókmenntagagnrýnendur þáttarins, Kolbrún og Þorgeir spjölluðu um bókina og voru al-ósammála. Kolbrún hafði eiginlega ekkert fallegt að segja um bókina og það fór auðvitað töluvert í taugarnar á höfundinum enda er hann viðkvæmt blóm. Eiginlega lagðist afstaða Kollu svo mikið á sálina á mér að þessi alvörulausi ritdómari vitjaði mín í draumi í nótt. Sú næturheimsókn var ekki skemmtileg. Auðvitað get ég ekki álasað Kolbrúnu fyrir að finnast spennubókin mín ekki algjört meistaraverk þegar henni finnst það ekki. Hún var ekki í stuði fyrir þessa bók og sama hvað ég segi eða reyndi að rökræða við hana mundi henni ekki finnast bókin neitt betri.

Aftur á móti var Þorgeir (og Egill tók undir) ánægður og fékk höfundurinn töluvert hrós frá þeim. Höfundurinn var líka algjörlega sammála þeim og þeirra góða smekk, yo! Þeim fannst bókin spennandi, launfyndin og karakterarnir góðir. Kolla hefur ekki samskonar skopskyn og þeir tveir.

En nú er ég alveg búinn að jafna mig á neikvæðni Kolbrúnar og tilgangi hennar til bókmenntagagnrýni. Ég hugsa ekki meira um þetta. Hver hefur sinn smekk og ekki getur öllum þótt bókin frábær. Svona er líf bókarhöfundar um þessar mundir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.