Hér eru kosningar til hins danska þings í dag. Ég hef ekki kosningarrétt í Danmörku þótt ég hafi lengi verið búsettur í landinu en reglurnar eru þannig að útlagar hafa ekki kosningarétt. Því verð ég bara að láta mér nægja að fylgjast með. En þetta verða spennandi kosningar þar sem aðalkosningamálið er styrking heilbrigðiskerfisins og hvaða aðferðum maður skal beita til að fá fólk til að vinna í þessu landi. Menningarmál eru ekki á dagskrá. Innflytjendamál sem lengi voru helsta átakaefni dönsku stjórnmálaflokkanna eru ekki lengur í brennidepli. Hér eru meira eða minna allir flokkar sammála um að herða innflytjendalöggjöfina.
Ég las grein í gær um ástand norska bókamarkaðarins og þá nýju þróun þar sem streymisþjónusturnar stýra meira eða minna hvaða bækur áskrifendur streymisveitnanna lesa. Á 15 bóka topplista Storytel í Noregi hafa einungis verið bækur frá Cappelan-Damm síðustu 3 mánuði. Cappelan-Damm á Storytel ásamt Storytel AS. Í Noregi er líka rekin önnur stór streymisveita sem heitir Fabel og það eru Gyldendal og Aschehoug forlögin sem eru þar meirihlutaeigendur. Á þeirra topplista er ekki ein einasta bók frá Cappelan – Damn í ágúst og september. Þetta er víst þróunin og ekki sérlega gæfuleg.
Í dag er 1. nóvember og Davíð á afmæli í dag. Yo!
ps. ég fékk þessa mynd senda um daginn sem sýnir fótboltalið Bjarts eins og það var skipað í leik á móti Eddu sálugu. Ég held að þetta hafi verið árið 2001.