Frelsið kom með ítalska öskubílnum

Fyrir um það bil þrjátíu árum gekk handhafi bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2022, Solvej Balle, inn á hárgreiðslustofu i Kaupmannahöfn og bað hárgreiðslumanninn sem tók á móti henni að finna hárgreiðslu fyrir hana svo hún líktist lifrapylsu. Án þess að hika tók hárgreiðslumaðurinn til óspilltra málanna og gerði sitt besta til að gera útlit Solvej Balle svo óáhugavert að hún vekti sem minnsta eftirtekt eða áhuga.

Þegar þessi hárgreiðslustund fór fram á litlu hárgreiðslustofunni í Kaupmannahöfn hafði Solvej Balle slegið hressilega í gegn með bókinni sinni „Ifølge loven“ eða Lögum samkvæmt. Bókin var seld til stórra og virðulegra forlaga út um allan heim og Solvej var fengin í ótal viðtöl við blaðamenn úti um allar trissur. Þessum sirkus tók hún þátt í af heilum hug en fann fljótt að það átti ekki við hana að sinna sölustörfum fyrir bækur sínar. Hún hafði ekki áhuga á sviðsljósinu og finna sífellt nýjar frásagnir til að vekja athygli á bókum sínum. Solvej Balle tók því þá ákvörðun að hún skyldi einbeita sér að því að skrifa bækurnar í stað þess að selja þær. Hún ákvað að hefja gagnsókn gegn markaðsvæðingu bóka hennar. Hún lét sig hverfa og flutti til lítillar eyjar suður af Fjóni þar sem íbúar eru um 2000. Samtímis stofnaði hún sitt eigið forlag sem hún kallar Pelagraf til að gefa út bækur hennar svo hún þurfi ekki að tala við starfsmenn bókaforlaga.

Nú er Solvej orðin 60 ára og í  þau þrjátíu ár sem eru liðin frá því að hún sló fyrst í gegn hefur hún unnið að þessu skrýtna verki Om udregning af rumfang, sem í gærkvöldi vann Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.  Þetta er sjö binda verk en aðeins þrjú bindi eru þegar útkomin. Dómnefnd bókmenntaverðlaunanna sagði meðal annars í greinargerð sinni að verk Solvej Balle væri mikið bókmenntaafrek því  að í bókunum setur höfundur fram grundvallarspurningar um hvernig einstaklingar skynja tíma og rúm og hvaða áhrif þessir þættir hafa á líf okkar og samfélag.

Það hefur ekki gerst fyrr í sögu  bókmenntaverðlaunanna að vinningshafi fái verðlaun fyrir þrjár bækur. Bækurnar í ritröðinni fjalla um konu eina, Tara Selter, sem vaknar aftur og aftur til þess 18. nóvember og finnur ekki leiðina út úr þessari endurteknu  tímahringrás. Dómnefndin segir einnig: „Om udregning af rumfang er meistaralega unnið bókmenntaverk og þetta sé stórkostleg endurkoma Solvej Balle, ekki bara inn í danskar bókmenntir eða inn í  norrænar bókmenntir, heldur inn í  evrópskar bókmenntir.“

Solvej Balle hefur sagt frá því að hún hafi fengið hugmyndina að bókinni árið 1987 en hún hafi  þurft að þorskast og þróast. Á þessum rúmu 30 árum hefur Solvej skrifað kafla hér og kafla þar, brot hér og brot þar Síðan raðar hún köflunum saman og kemur brotunum fyrir á réttum stað. Árið 2020 kom fyrsta bindið út og númer tvö og þrjú komu út árið eftir. Bók númer fjögur er væntanleg nú í nóvember 2022,

Eiginlega hafði Solvej ekki almennilega getað einbeitt sér að því að koma þessu stóra verki saman fyrr en maðurinn hennar flutti frá henni og síðan sonurinn því henni finnst hún þurfa algjört næði eða tómt hús til að skrifa. Solvej er líka óvenjulega nákvæmur höfundur og notar gríðarlega mikinn tíma í rannsóknir. Til dæmis kemur það í ljós í fyrsta bindi bókanna að Tara (aðalpersónan) hafi töluvert vit á eldgömlum bókum. Solvej ákvað því, til að setja sig almennilega inn í það hvað þessi áhugi þýddi að skrá sig í Forn-grísku í háskólanum. Hún hefur líka  notað gífurlegan tíma til að setja sig inn í stjörnufræði og nýjustu rannsóknir á starfsemi heilans.

Þegar Solvej er tilbúin með nýtt bindi í ritröð sinni hjólar hún til prentarans á eyjunni sem sér um að setja bókina upp, Solvej velur leturgerð og línubil, spássíustærð og annað sem varðar útlit bókanna. Hún vill hafa fullkomið vald yfir framleiðsluferlinu og hvernig bækurnar eru kynntar. Þegar bækurnar eru prentaðar tekur hún lestina til Kaupmannahafnar með nokkrar bækur í kassa og selur helstu bóksölum svolítinn bunka í einu.

Solvej veit nákvæmlega hvað gerist í næstu fjórum bindum verksins, allt er úthugsað og meira að segja eru bókakápurnar þegar tilbúnar. En það hefur ekki verið átakalaust að skrifa verkið og hún hefur margoft reynt að sleppa undan því. Sú tilraun hennar  til að losna undan bókaskrifunum oghætta við allt saman gekk lengst fyrir 14 árum, segir hún í viðtali við Politiken árið 2016. Hún hafði ákveðið að setjast að í San Cataldo í Ítalíu í einskonar skrifútlegð. Þar sat hún og lét allt þetta mikla verk fara svo í taugarnar á sér að hún ákvað að safna saman öll minnisblöðum sem hún hafði tekið með sér og öllu því sem tengdist  bókunum og fleygja því í ruslið. Þegar öskubíllinn kom næsta dag hoppaði hún um af kæti; fagnaði heitt og innilega. „Loksins er ég frjáls,“ hrópaði hún í gleði sinni.

Það leið ekki langur tími þar til Solvej var aftur sest niður og byrjuð upp á nýtt að skrifa um þann 18. nóvember.

dagbók

Ein athugasemd við “Frelsið kom með ítalska öskubílnum

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.