Að veiða snjó í kaldri á

Í morgun barst mér mikil himnasending frá Reykjavík: glæný bók Braga Ólafssonar sem ber titilinn Gegn gangi leiksins. Sem sagt mjög Bragalegur bókatitill og nú þegar ég er næstum hálfnaður með bókina get ég sagt að sagan er líka mjög Bragaleg, eða það sem ég skilgreini sem Bragalegt. Ég ætla ekki að segja meira í bili um bókina því fyrst ætla ég að klára lesa skáldverkið.

Annars hef ég ekki lesið eina eina einustu þeirra bóka sem eru að koma út og taka þátt í hinu mikla jólabókaflóði. Fjarlægðin frá markaðinum er ekki alltaf kostur en ég kem nefnilega ekki höndum yfir bækur þessa dagana. En væntanlega bæti ég úr því þegar ég kem til landsins um miðjan nóvember. Þá mun ég keppast við að sanka að mér íslenskum bókum og sökkva mér í lestur.

Fyrr í vikunni las ég mér til mikillar ánægju bók, Meðal hvítra skýja, sem Hjörleifur Sveinbjörnsson, sá mikli heiðursmaður, vék að mér í útgáfuhófi  í Ásmundarsal fyrir nokkrum vikum í tilefni af útkomu bókarinnar EITT SATT ORÐ. Þetta eru kínversk ljóð eða vísur frá Tang-tímanum í þýðingu Hjörleifs en einmitt á þessu tímabil reis kínversk ljóðlistin  upp í áður óþekktar hæðir. Svo undarlegt sem það kann að hljóma  var ljóðlist og hæfni til að lesa og skrifa ljóð mikið lykilatriði til að ná frama í samfélaginu á tímum Tang-ættarinnar. Ef menn hugðust ná embættisframa skyldi maður skóla sig í ljóðlist. Þetta hljómar eins og útóbía í bók eftir Dag Hjartarson en svona voru tímarnir.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.