Í gær hafði ég ætlað mér að skrifa um nýja Goncourt-vinningshafann 2022, Birgitte Giraud (Goncourt eru stærstu bókmenntaverðlaun Frakka). Einhvern veginn flaug tíminn frá mér og ég komst aldrei til að skrifa um verðlaunin þótt mér þyki það allt í einu orðið gífurlega mikilvægt að Kaktusinn sé fyrstur með bókmenntafréttirnar, yo! Í gærkvöldi komu til mín góðir gestir (bæði frá Íslandi og Þýskalandi) sem var auðvitað frábærlega skemmtilegt en einn gestanna sagði mér að hún hefði í flugvélinni frá Íslandi lesið um Solvej Balle hér á Kaktusnum og vöktu þau skrif svo mikinn áhuga hennar að hún lét það verða eitt af sínum fyrstu verkum eftir að flugvélin hennar lenti í Kaupmannahöfn að kaupa bækur Solvej Balle í danskri bókabúð. Sem sagt bókmenntaskrif Kaktussins eru ekki alveg gagnslaus; þau stuðla í þessu tilviki heldur betur að aukinni bóksölu.
Ég fékk ekki bara skemmtilega gesti í heimsókn heldur barst mér (með gestunum) líka bókasendingu frá Íslandi með kveðjum frá höfundum: Gula kafbátinn (frábær titill) hans Kalmans og bókina hennar Siggu Hagalín, Hamingja þessa heims (frábær titill). Ég byrjaði strax í morgun á Gula kafbátnum (ég gat ekki á mér setið) og ég held að þetta sé frábær bók hjá Kalman (ég veit það auðvitað ekki enn, en ég fékk sterka tilfinningu fyrir því).
Á meðan ég sat á kvöldfundi inni í Kaupmannahöfn sl. fimmtudagskvöld settist tíu manna dómnefnd frönsku Goncourd-verðlaunna niður á veitingastaðnum Drouant í París – eins og dómnefndin hefur gert síðan árið 1914 – og tilkynnti hver væri hinn heppni vinningshafi í ár. Marcel Proust, Simon De Beauvoir og Marguerite Duras hafa á árum áður tekið á móti þessum virðulegu verðlaun en í ár kom fáum á óvart þegar dómnefndarformaðurinn tilkynnti viðstöddum blaðamönnum að Birgitte Giraud hefði verið hlutskörpust. Bók Girauds: Vivre Vite (Að lifa hratt) var meðal fjögurra tilnefndra bóka en hefur allt frá því að tilnefningarnar voru gerðar heyrum kunnar verið talin líklegust til að hreppa verðlaunin.
Bókin Vivre Vite er stutt bók (einungis 208 síður með stóru línubili). Þetta er persónuleg bók og lýsir höfundur tímabili þegar hún og eiginmaður hennar (Claude) voru um það bil að hefja nýja kafla í lífi sínu. Claude var 41 árs og Birgitte var 36 ára. Hann var tónlistarmaður og hún vann í bókabúð. Þau voru nýbúin að kaupa hús í útjaðri Lyon, áttu saman 2 ára gamlan son og héldu að nú væru þau endanlega búin að búa vel í haginn fyrir fjölskylduna og þeirra biði áhyggjulaust líf.
En þann 22. júní árið 1999, á leið til að sækja barnið á leikskólann, klessukeyrði Claude mótorhjólið og lést í slysinu. Með slysnu slokknuðu allar hamingjuvonir fjölskyldunnar. „Ég flutti burt úr húsinu með syni mínum. Tímaröðin var nákvæmlega svona: Kaupsamningur á húsi undirritaður, slys, flutningur, jarðarför,“ skrifar Birgitte í formála verðlaunabókarinnar.
Vivre Vite er mest selda skáldsaga Frakklands um þessar mundir