Ferskur, kraftmikill og algjörlega þeirra eigin.

Áður en ég lagði af stað í morgunhlaup á sunnudegi (sem sagt í morgun) klæddist ég gula hlaupajakkanum mínum. Þegar ég smeygði þessari áberandi, gulu flík yfir höfuðið hugsaði ég með mér, já, það er kominn vetur, því jakkinn er svo hlýr að einungis er hægt að klæðast honum þegar kalt er í veðri. Ég þurfti aðeins að herða upp hugann áður en ég lagði af stað út regnið því að ég vissi að ég yrði strax gegnblautur og nokkur vindstrengur úr suðri mundi kæla mig hratt niður ef ég hlypi mér ekki til hita,

Ég tók eina mynd á hlaupaleiðinni meðfram ströndinni. Þetta er mynd af hausttré og nokkrum stólum sem snúa út á haf. Enginn sat í stólunum í morgun, enginn naut útsýnisins yfir sundið og enginn sat og velti fyrir sér lífinu á eyjunni sem er úti á miðju sundinu. Rétt útifyrir ströndinni sigldi bátur í átt til eyjarinnar. Kannski flutti hann vistir; brauð, vín og ost.

Ég les þrjár bækur um þessar mundir. Anden verdenskrig eftir Antony Beevor, The Lincoln Highway eftir Amor Towles og Gula kafbátinn hans Jóns Kalmans. Sjálfir Bítlarnir leika svolítið hlutverk í bókinni hans Jóns og þegar minnst er á þessi fjögurra manna hljómsveit hugsa ég ósjálfrátt til orða gagnrýnandi nokkurs sem skrifaði ekki fyrir svo löngu í New York Times um frumraun Bítlanna, sem sagt fyrstu plötu þeirra, þar sem hann sagði eitthvað á þá leið að tónlist hljómsveitarinnar  og hljómurinn á plötunni var „ferskur, kraftmikill og algjörlega þeirra eigin“. Þessi orð „ferskur, kraftmikill og algjörlega þeirra eigin,“ fannst mér eiginlega hin fullkomlega skilgreining á orðinu frumlegur. Að sumu leyti má segja þetta sama um sögu Jóns, fersk, kraftmikil og algjörlega Jóns eigin rödd.

En ég ætla ekki að koma mér undan að segja hvað mér fannst um bók Braga Ólafssonar, Gegn gangi leiksins. Ég held upp á skáldskap Braga, ég held í rauninni mjög mikið upp á rödd Braga sem  líka er frumleg, eins og hljómur Bítlanna. Þegar ég var ungur maður gekk ég um með bók Braga Ansjósur í jakkavasanum og lét næstum ekkert tækifæri framhjá mér fara til að grípa í bókina og lesa eins og tvö eða þrjú ljóð. Ég var gersamlega hugfanginn af skáldskap Braga. Þessi bók sem ég hef nýlokið við, Gegn gangi leiksins, á ekki eftir að fylgja mér á sama hátt og Ansjósurnar. Ég kann vel við tóninn í sögunni, sem svo sannarlega er Braga eigin, en ég er of vitlaus til að skilja hvað Bragi er að fara með þessari frásögn. Sagan er oft fyndin og hressileg en ég fatta hana ekki alveg. Norski presturinn og rithöfundurinn Jan Kjærstad skrifaði um það í einu ritgerðasafni sínu þegar hann reyndi  að lesa bók Viginiu Woolf, The Waves sem hún skrifaði árið 1931. The Waves er mjög sérkennileg saga sem Kjærstad hefur lesið fimm sinnum. Í fyrsta sinn sem hann reyndi að lesa bókina komst hann að blaðsíðu 40 áður en hann gafst upp og var að því kominn að henda bókinni í ruslatunnuna (sem var sjö hæðum neðar). Í annað skipti reyndi hann að lesa bókina með því að segja við sjálfan sig að hann skyldi bara lesa orðin og láta þau verka á sig, þótt hann skyldi ekki hvað hann var að lesa. Blóðlaus, litlaus, leiðinleg og í mesta lagi svolítið  torræð, þannig hljóðaði dómurinn eftir annan lestur. Og hann reyndi í þriðja sinn og uppgötvaði allt í einu hvernig Woolf lýsti vináttunni og í fjórðu tilraun áttaði hann sig betur á eiginleikum þeirra sex persóna sem segja frá lífi sínu í bókinni og í fimmtu tilraun áttaði Kjærstad sig betur á að veruleikinn er samansettur úr tengslum á milli persónanna. Þessu segi ég frá vegna þess að ég átta mig á því að sennilega þarf ég að lesa bók Braga aftur til að skilja betur þau grunnelement sem sagan er byggð á.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.